Lambakjötskarríréttur

Einfaldur indverskættaður karríréttur með tómötum og lauk. Í staðinn fyrir karríduft mætti líka nota karrímauk úr krukku, milt eða sterkt eftir smekk.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg lambakjöt, beinlaust
 2 msk olía
 2 stórir laukar, saxaðir
 3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir
 1-2 cm engiferbiti, rifinn
 2 msk karríduft, meðalsterkt
 2 msk hvítvínsedik
 4-5 tómatar, saxaðir (eða 1 dós niðursoðnir)
 1 tsk garam masala

Leiðbeiningar

1

Kjötið fituhreinsað að mestu og skorið í teninga. Olían hituð í potti og laukurinn, hvítlaukurinn og engiferinn látinn krauma í henni við vægan hita í 6-8 mínútur. Karríduftinu hrært saman við og látið krauma í 1-2 mínútur í viðbót. Edik og salt sett út í og síðan lambakjötið. Hrært vel. Tómatar settir út á (ásamt leginum úr dósinni, ef niðursoðnir tómatar eru notaðir), lokað og látið malla við vægan hita í klukkustund eða lengur: Hrært af og til og svolitlu vatni bætt við ef þarf. Garam masala stráð yfir skömmu fyrir lok suðutímans. Borið fram með hrísgrjónum.

Deila uppskrift