Lambakjöts-pastaréttur með kryddjurtasósu

Lambakjöt er ekki sérlega algengt í pastaréttum en á þó mjög vel við í sumum þeirra. Hér er pastað til dæmis með sneiddum lambalundum og steiktum eggaldinsneiðum og svo er sett á það frískleg og góð kryddjurtasósa.

Pottur og diskur

Hráefni

 350 g lambalundir
 1 msk. hvítlauksolía
 nýmalaður pipar
 salt
 350 g penne (pastapípur)
 1 eggaldin
 4 msk. ólífuolía
 0.75 dós (150 g) sýrður rjómi (10%)
 1 skalottlaukur, saxaður (eða smábiti af venjulegum lauk)
 1 msk. sítrónusafi, nýkreistur
 1 hvítlauksgeiri, saxaður
 3 msk steinselja, söxuð
 2 msk. kerfill, saxaður (má sleppa)
 1 msk. graslaukur, saxaður

Leiðbeiningar

1

Veltið lundunum upp úr hvítlauksolíu og kryddið þær með pipar og salti. Hitið grillpönnu eða venjulega, þykkbotna pönnu mjög vel og snöggsteikið lundirnar í 2-3 mínútur á hvorri hlið, eftir því hve þykkar þær eru. Takið þær svo af pönnunni og setjið á disk. Sjóðið pastað í miklu saltvatni samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum, þar til það er rétt tæplega meyrt (al dente). Skerið á meðan eggaldinið í 1 sm þykkar sneiðar þvert yfir, veltið þeim upp úr ólífuolíu, kryddið þær með svolitlum pipar og salti og steikið þær á vel heitri pönnunni í 3-4 mínútur á hvorri hlið; bætið við olíu eftir þörfum. Setjið sýrðan rjóma, skalottlauk, sítrónusafa, hvítlauk og kryddjurtir í blandara eða matvinnsluvél og látið ganga þar til blandan er alveg slétt. Skerið lambalundirnar í sneiðar á ská og hrærið öllum safa sem hefur runnið úr þeim saman við kryddjurtasósuna. Smakkið og bragðbætið með pipar og salti ef þarf. Hellið pastanu í sigti og látið renna vel af því. Hvolfið því svo í skál, hellið kryddjurtasósunni yfir og blandið vel. Setjið kjötið út í og blandið. Raðið eggaldinsneiðum á fat, hrúgið pastanu í miðjuna og berið fram strax.

Deila uppskrift