Lambakjöts-pastaréttur með kryddjurtasósu

Lambakjöt er ekki sérlega algengt í pastaréttum en á þó mjög vel við í sumum þeirra. Hér er pastað til dæmis með sneiddum lambalundum og steiktum eggaldinsneiðum og svo er sett á það frískleg og góð kryddjurtasósa.

Pottur og diskur

Hráefni

 350 g lambalundir
 1 msk. hvítlauksolía
 nýmalaður pipar
 salt
 350 g penne (pastapípur)
 1 eggaldin
 4 msk. ólífuolía
 0.75 dós (150 g) sýrður rjómi (10%)
 1 skalottlaukur, saxaður (eða smábiti af venjulegum lauk)
 1 msk. sítrónusafi, nýkreistur
 1 hvítlauksgeiri, saxaður
 3 msk steinselja, söxuð
 2 msk. kerfill, saxaður (má sleppa)
 1 msk. graslaukur, saxaður

Leiðbeiningar

1

Veltið lundunum upp úr hvítlauksolíu og kryddið þær með pipar og salti. Hitið grillpönnu eða venjulega, þykkbotna pönnu mjög vel og snöggsteikið lundirnar í 2-3 mínútur á hvorri hlið, eftir því hve þykkar þær eru. Takið þær svo af pönnunni og setjið á disk. Sjóðið pastað í miklu saltvatni samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum, þar til það er rétt tæplega meyrt (al dente). Skerið á meðan eggaldinið í 1 sm þykkar sneiðar þvert yfir, veltið þeim upp úr ólífuolíu, kryddið þær með svolitlum pipar og salti og steikið þær á vel heitri pönnunni í 3-4 mínútur á hvorri hlið; bætið við olíu eftir þörfum. Setjið sýrðan rjóma, skalottlauk, sítrónusafa, hvítlauk og kryddjurtir í blandara eða matvinnsluvél og látið ganga þar til blandan er alveg slétt. Skerið lambalundirnar í sneiðar á ská og hrærið öllum safa sem hefur runnið úr þeim saman við kryddjurtasósuna. Smakkið og bragðbætið með pipar og salti ef þarf. Hellið pastanu í sigti og látið renna vel af því. Hvolfið því svo í skál, hellið kryddjurtasósunni yfir og blandið vel. Setjið kjötið út í og blandið. Raðið eggaldinsneiðum á fat, hrúgið pastanu í miðjuna og berið fram strax.

Deila uppskrift

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​