Lambakjöts- og hrísgrjónapílaf

Þessi lambakjöts- og hrísgrjónaréttur, sem ættaður er frá Mið-Asíu, er kannski svolítið fyrirhafnarsamur en þó einfaldur um leið og fyrirhöfnin borgar sig alveg. Hrísgrjónin eru soðin með kjötinu en ekki borin fram sér.

Pottur og diskur

Hráefni

 6-800 g lambaframhryggur
 100 ml olía
 3 laukar, saxaðir
 1 tsk kummin, grófsteytt
 350 g hrísgrjón, helst basmatigrjón
 400 g gulrætur
 nýmalaður pipar
 salt
 0.75 l kjötsoð eða vatn (eða eftir þörfum)
 25 g möndlur, heilar

Leiðbeiningar

1

Kjötið bein- og fituhreinsað og skorið í fremur stóra bita. Olían hituð á stórri, þykkbotna pönnu eða í víðum potti og laukurinn látinn krauma í henni við meðalhita þar til hann er að byrja að brúnast. Kummini hrært saman við og látið krauma í 1-2 mínútur í viðbót en þá er lauknum ýtt út til hliðanna og kjötið brúnað við meðalhita á öllum hliðum. Lok sett á pottinn og kjötið látið krauma áfram við vægan hita í 10-15 mínútur; svolitlu vatni bætt út í ef þarf. Á meðan eru hrísgrjónin skoluð vel og sett í skál, köldu vatni hellt yfir og þau látin standa nokkra stund. Gulræturnar skafnar og skornar í eldspýtnasverar ræmur. Settar í pottinn og látnar krauma smástund en síðan er kjötið kryddað með pipar og salti, lok lagt yfir og látið krauma í um hálftíma; svolitlu vatni bætt við ef þarf svo ekki brenni við. Hrísgrjónunum hellt í sigti, látið renna vel af þeim, og þegar kjötið er orðið meyrt er þeim hrært saman við. Látið krauma í nokkrar mínútur og síðan er soðinu hellt yfir og látið sjóða við meðalhita í um 10 mínútur. Hitinn lækkaður, lok sett á pottinn og látið malla við mjög vægan hita í 15 mínútur í viðbót en síðan er potturinn tekinn af hitanum en lokið haft á honum og hann látinn standa óhreyfður í 10-15 mínútur. Á meðan eru möndlurnar ristaðar á þurri pönnu þar til þær eru rétt farnar að taka lit. Lokið tekið af pottinum, hrært gætilega í honum með gaffli, möndlum stráð yfir og borið fram.

Deila uppskrift