Lambakjöt í kókoskarrísósu

Mjög bragðgóður lambakjötsréttur í kókoskarrísósu, ættaður frá Suðaustur-Asíu. Kjötið er brúnað og síðan látið malla með grænmeti og kryddi í niðursoðinni kókosmjólk þar til hún er orðin að ljúffengri sósu.

Pottur og diskur

Hráefni

 800 g lambakjöt, t.d. framhryggjarsneiðar
 hvíti hlutinn af 1 blaðlauk
 2-3 hvítlauksgeirar
 3 sm bútur af engifer
 2 msk. olía
 2 tsk. karrí, eða eftir smekk
 1 tsk. kóríander, malað
 1 tsk. kummin, malað
 2 tsk. paprikuduft
 2 tsk. túrmerik (má sleppa)
 chilipipar eða cayennepipar á hnífsoddi
 salt
 3-4 gulrætur
 1 sæt kartafla (einnig má nota venjulega kartöflu)
 1 dós (400 ml) kókosmjólk
 1 dl vatn
 2-3 tómatar
 1 límóna
 1-2 vorlaukar, aðeins grænu blöðin

Leiðbeiningar

1

Takið kjötið af beinunum (frystið e.t.v. beinin til að nota í soð seinna), fitusnyrtið það að mestu og skerið það í fremur þunnar sneiðar eða litla bita. (ATH aðnota beinlusa gúllasbitatil að flýta fyrir)Saxið blaðlaukinn smátt og saxið hvítlauk og engifer mjög smátt. Hitið 1 msk. af olíu í wok eða á venjulegri pönnu og steikið blaðlaukinn við háan hita í 2-3 mínútur. Bætið hvítlauk og engifer út í og steikið í hálfa mínútu í viðbót. Stráið karríi, kóríander og kummini yfir, hrærið vel í og takið svo upp með gataspaða og setjið á disk. Setjið meiri olíu á pönnuna og brúnið kjötið við góðan hita; setjið aðeins nokkra bita í einu á pönnuna svo að hitinn haldist hár. Afhýðið sætu kartöfluna og skerið hana í teninga og skerið gulræturnar í sneiðar. Setjið á pönnuna þegar búið er að brúna kjötið, kryddið með paprikudufti, túrmeriki, chilipipar og salti og hrærið blaðlauksblöndunni saman við. Hellið kókosmjólk og vatni yfir, hrærið vel og látið sjóða við meðalhita í um 20 mínútur. Hrærið oft í á meðan. Fræhreinsið tómatana, skerið þá í litla bita og setjið út í. Sjóðið í 5-10 mínútur í viðbót, eða þar til kjötið og grænmetið er meyrt og sósan hefur þykknað. Bragðbætið með límónusafa og salti eftir smekk. Stráið söxuðum vorlauk yfir og berið fram með soðnum hrísgrjónum.

Deila uppskrift