Lambahryggur með rabarbara- og spínatkompoti

Lambakjöt og rabarbari eiga býsna vel saman og það er gaman að nota tækifærið á vorin og bera fram rabarbarakompot með kjötinu. Hér er dálítið spínat haft saman við en einnig má sleppa því og bera þess í stað fram gott salat með kjötinu og kompotinu. Hrygginn má líka grilla sem passar vel með glænýjum rabarbaranum.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambahryggur, meðalstór
 1 tsk. ferskt rósmarín, saxað smátt, eða 0.25 tsk. þurrkað
 nýmalaður pipar
 salt
 750 g rabarbari, helst rauður
 150 g spínat
 3 msk. sykur
 2 msk. vatn
 0.25 tsk. kínversk fimm krydda blanda (má sleppa)

Leiðbeiningar

1

Hitið ofninn í 220°C. Kryddið lambahrygginn með rósmaríni, pipar og salti, setjið hann í ofnskúffu eða eldfast fat og steikið hann í 15-20 mínútur, eða þar til hann er farinn að taka góðan lit. Lækkið þá hitann í 150°C og steikið áfram í 15-30 mínútur eftir smekk. Takið hrygginn út og látið hann standa í a.m.k. 8-10 mínútur áður en hann er skorinn. Skerið rabarbarann í 3-4 sm bita. Skolið spínatið undir rennandi köldu vatni, látið renna vel af því og klípið e.t.v. svera stilka af blöðunum. Setjið sykur, vatn og fimm krydda blönduna á stóra pönnu, hitið og hrærið þar til sykurinn er uppleystur. Setjið þá rabarbarann á pönnuna og látið malla í 3-4 mínútur undir loki. Setjið þá spínatið ofan á og látið malla í 3-4 mínútur í viðbót við vægan hita. Hrærið lauslega í blöndunni og berið kompotið fram með hryggnum, e.t.v. ásamt soðnum kartöflum.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​