Lambahryggur með rabarbara- og spínatkompoti

Lambakjöt og rabarbari eiga býsna vel saman og það er gaman að nota tækifærið á vorin og bera fram rabarbarakompot með kjötinu. Hér er dálítið spínat haft saman við en einnig má sleppa því og bera þess í stað fram gott salat með kjötinu og kompotinu. Hrygginn má líka grilla sem passar vel með glænýjum rabarbaranum.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambahryggur, meðalstór
 1 tsk. ferskt rósmarín, saxað smátt, eða 0.25 tsk. þurrkað
 nýmalaður pipar
 salt
 750 g rabarbari, helst rauður
 150 g spínat
 3 msk. sykur
 2 msk. vatn
 0.25 tsk. kínversk fimm krydda blanda (má sleppa)

Leiðbeiningar

1

Hitið ofninn í 220°C. Kryddið lambahrygginn með rósmaríni, pipar og salti, setjið hann í ofnskúffu eða eldfast fat og steikið hann í 15-20 mínútur, eða þar til hann er farinn að taka góðan lit. Lækkið þá hitann í 150°C og steikið áfram í 15-30 mínútur eftir smekk. Takið hrygginn út og látið hann standa í a.m.k. 8-10 mínútur áður en hann er skorinn. Skerið rabarbarann í 3-4 sm bita. Skolið spínatið undir rennandi köldu vatni, látið renna vel af því og klípið e.t.v. svera stilka af blöðunum. Setjið sykur, vatn og fimm krydda blönduna á stóra pönnu, hitið og hrærið þar til sykurinn er uppleystur. Setjið þá rabarbarann á pönnuna og látið malla í 3-4 mínútur undir loki. Setjið þá spínatið ofan á og látið malla í 3-4 mínútur í viðbót við vægan hita. Hrærið lauslega í blöndunni og berið kompotið fram með hryggnum, e.t.v. ásamt soðnum kartöflum.

Deila uppskrift