Lambahryggur með apríkósu- og furuhnetufyllingu

Það er ekki svo mikið mál að úrbeina lambahrygg, bara renna hnífsblaði þétt upp við rifin öðrum megin og losa vöðvann frá og skera svo upp með hryggjarbeinunum en gæta þess að hnífurinn fari ekki í gegnum pöruna svo að hún verði heil. Þetta er svo endurtekið hinum megin og þá ætti kjötið allt að vera laust frá beinunum. Munið eftir lundunum.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambahryggur, um 2 kg
 nýmalaður pipar
 salt
 3 msk. furuhnetur
 1 msk. olía
 1/2 laukur, saxaður smátt
 2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 12-16 apríkósur, þurrkaðar
 1-2 brauðsneiðar
 2-3 msk. steinselja, söxuð
 safi úr 1/2 sítrónu

Leiðbeiningar

1

Úrbeinið lambahrygginn eða látið gera það fyrir ykkur í kjötborðinu. Klippið nokkra 30-40 sm langa seglgarnsspotta og leggið þá á bretti með 2-3 sm millibili. Leggið hrygginn ofan á og látið pöruna snúa niður. Skerið aðra lundina frá og leggið hana á framhluta hryggjarins svo að kjötið verði álíka þykkt alls staðar. Kryddið með pipar og salti og hitið ofninn í 220°C. Ristið furuhneturnar á þurri pönnu þar til þær eru farnar að taka lit. Hellið þeim þá á disk og hitið olíuna á pönnunni. Látið laukinn og hvítlaukinn krauma við fremur vægan hita í nokkrar mínútur. Saxið apríkósurnar og bætið þeim á pönnuna. Setjið brauðið og steinseljuna í matvinnsluvél eða blandara og látið vélina ganga þar til komin er grófgerð mylsna. Hrærið henni saman við laukblönduna, ásamt furuhnetunum, kreistið sítrónusafa yfir og kryddið með pipar og salti. Dreifið fyllingunni á hrygginn, vefjið honum utan um og bindið vefjuna þétt með seglgarninu. Setjið hana í eldfast fat og látið samskeytin snúa niður. Setjið kjötið í ofninn og steikið í um 20 mínútur. Lækkið þá hitann í 16°C og steikið í 25-40 mínútur í viðbót, eftir því hvað kjötið á að vera mikið steikt. Látið það standa í a.m.k. 15 mínútur áður en það er skorið. Berið fram með soðnum eða steiktum kartöflum og grænu salati eða t.d. með kúskús.

Deila uppskrift