Kryddlegin lambalund með límónum og chili

Íslenska lambakjötið er svo meyrt og gott að stundum þarf ekki einu sinni að elda það til að unnt sé að bera það á veisluborðið. Hér er lambalundin einungis marineruð og síðan borin fram í þunnum sneiðum á brauði.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 væn lamba- eða kindalund
 1 msk rauðvínsedik
 jómfrúarolía (extra virgin)
 1 rautt chilialdin
 2 límónur (lime)
 nýmalaður pipar
 Maldon sjávarsalt
 baguettebrauð
 salatblöð

Leiðbeiningar

1

Best er að byrja á að kryddleggja lundina í nokkra klukkutíma eða allt að sólarhring í 1 msk. af rauðvínsediki og 1 msk. af olíu, sem blandað er saman, sett í plastpoka ásamt lundinni, bundið fyrir, velt til og frá þar til lundin er þakin leginum, og látið standa í kæli. Takið svo lundina úr pokanum og strjúkið vel af henni. Skerið hana í 3-4 bita og hvern bita í mjóar ræmur. Setjið í skál. Fræhreinsið chilialdin, saxið og setjið saman við. Rífið börkinn af annarri límónunni yfir og kreistið safann úr þeim báðum (ef þær eru mjög safaríkar ætti þó ein að duga). Hellið 3-4 msk af ólífuolíu yfir, kryddið með nokkuð miklum pipar og dálitlu salti og látið standa í um hálftíma.Skerið þá sneiðar af brauðinu og dreypið svolítilli olíu á hverja, leggið lítið salatblað ofan á, setjið nokkra bita af kjötinu á hverja sneið og stráið sjávarsalti yfir.

Deila uppskrift