Kryddjurtahjúpað lambalæri með gljáðu grænmeti
Einstaklega gott og meyrt lambalæri í mildum kryddjurtahjúpi sem gefur því ljúft og gómsætt bragð. Með því er mjög gott að hafa gljáð rótargrænmeti, t.d. gulrætur og nípur. Nípa (parsnip, pastinak) er rótargrænmeti líkt gulrót að lögun og fæst í sumum verslunum hérlendis undir nafninu steinseljurót. Það er hins vegar rangnefni því eiginleg steinseljurót er allt annað grænmeti og ekki hægt að nota það á sama hátt. Svo má auðvitað hafa soðið grænmeti eða gott grænmetissalat með líka.
- 6
Hráefni
Leiðbeiningar
Hitið ofninn í 225°C og fitusnyrtið lambalærið e.t.v. dálítið. Setjið kryddjurtir og hvítlauk í matvinnsluvél eða blandara og saxið það smátt. Hellið mestallri olíunni saman við smátt og smátt og látið vélina ganga þar til allt er orðið að mauki. Kryddið með pipar og salti. Skerið laukana í þykkar sneiðar og raðið þeim á botninn á olíubornu steikarfati eða ofnskúffu. Smyrjið kryddjurtamaukinu jafnt á allt lærið og leggið það ofan á. Setjið í ofninn og steikið í 20-25 mínútur. Lækkið þá hitann í 170°C, hellið vatni í ofnskúffuna og steikið áfram í um 25 mínútur. Afhýðið þá gulræturnar og nípurnar, skerið í tvennt eða fernt eftir endilöngu og setjið í fatið við hliðina á lærinu. Steikið kjötið áfram í 15-25 mínútur eftir smekk, eða þar til kjöthitamælir sem stungið er í vöðvann þar sem hann er þykkastur sýnir um 60°C (fyrir kjöt sem er vel bleikt í miðju) eða meira. Takið kjötið þá út, setjið á fat og haldið heitu. Snúið grænmetinu eða ausið yfir það, hækkið hitann aftur í 225°C og steikið áfram í 10-20 mínútur, eða þar til grænmetið hefur tekið góðan lit og er meyrt í gegn. Takið það þá upp úr og haldið heitu en hellið soðinu gegnum sigti og setjið í pott, bætið við meira soði (eða vatni og kjötkrafti), hitið að suðu, þykkið með sósujafnara, bragðbætið með pipar og salti eftir smekk og berið fram með kjötinu.