Kjötsúpa með sveppum og grænmeti

Þessi góða kjötsúpa er bragðmikið en létt tilbrigði við hefðbundna íslenska kjötsúpu og í hana eru meðal annars notaðir sveppir og paprika.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg lambakjöt, t.d. súpukjöt eða framhryggur
 1.5 l vatn
 2-3 gulrætur
 1 lítill blaðlaukur (hvíti og ljósgræni hlutinn)
 2 lárviðarlauf
 nýmalaður pipar
 salt
 1 lítil gulrófa
 1 græn paprika
 200 g sveppir
 saxaður kerfill eða steinselja

Leiðbeiningar

1

Skerið kjötið af beinunum en hendið þeim ekki. Hreinsið burt hluta af fitunni og skerið kjötið síðan í fremur litla bita. Setjið kjötið og beinin í pott (gott er að binda grisju utan um beinin en það er ekki nauðsynlegt). Hellið köldu vatni yfir, hitið að suðu, látið sjóða rösklega í nokkrar mínútur og fleytið froðu ofan af. Skerið gulræturnar í fremur þunnar sneiðar. Skerið blaðlaukinn í 3-4 sm bita og hvern bita síðan í mjóar ræmur. Setjið grænmetið út í ásamt lárviðarlaufi, kryddið með pipar og salti og látið súpuna malla við hægan hita undir loki í um hálftíma. Afhýðið gulrófuna og skerið hana í litla teninga, um 1 sm á kant. Fræhreinsið paprikuna og skerið hana í bita og skerið sveppina í sneiðar. Setjið grænmetið út í og látið malla í opnum potti í um 15 mínútur, eða þar til kjötið og grænmetið er meyrt. Fjarlægið beinin og lárviðarlaufin og hendið þeim. Smakkið súpuna og bragðbætið með pipar og salti eftir smekk. Saxið kerfil eða steinselju smátt og stráið yfir.
Það má líka sleppa því að sjóða beinin með í súpunni en hún verður mun bragðmeiri ef það er gert.

Deila uppskrift