Kjöt í karrísósu
Kjöt í karrí eins og hjá mömmu og ömmu - réttur sem flestum börnum líkar einstaklega vel við, enda er sósan mild og mjúk og kjötið meyrt og gott.
- 4
Leiðbeiningar
Kjötið e.t.v. fituhreinsað eitthvað og sett í pott. Vatni hellt yfir og hitað að suðu. Froða fleytt ofan af, saltað og lárviðarlaufið sett út í. Látið malla við fremur hægan hita í um 35 mínútur. Á meðan eru kartöflurnar afhýddar og skornar í stóra bita og gulræturnar skafnar og skornar í bita. Sett í pottinn og soðið í 15-20 mínútur í viðbót, eða þar til kjötið er meyrt og grænmetið soðið í gegn. Þá er kjötið og grænmetið tekið upp með gataspaða, sett á fat og haldið heitu. Soðið síað og mælt og ½ l hellt aftur í pottinn og hitað að suðu. Hveiti, karrí og smjör hrært saman í skál og síðan er smjörbollan sett í pottinn og hrært þar til sósan hefur þykknað. Látin malla við hægan hita í um 5 mínútur, smökkuð til með salti og e.t.v. pipar og síðan borin fram með kjötinu og grænmetinu, ásamt soðnum hrísgrjónum.
Stundum er gulrótunum sleppt og jafnvel kartöflunum líka og kjötið aðeins borið fram með hrísgrjónum og sósu.