Kínverskur lambakjötsréttur

Kínverjar sjálfir mundu sennilega ekki nota lambakjöt í þennan rétt en það er vegna þess að þar er lítið um sauðfé nema í norðurhéruðunum. Þessi uppskrift hentar þó mjög vel fyrir meyrt lambakjöt, t.d. af læri.

Pottur og diskur

Hráefni

 500 g meyrt lambakjöt
 1 rauð paprika
 100 g sveppir
 250 g spínat
 175 g kasjúhnetur
 3 msk olía
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 2-3 þurrkuð chilialdin, mulin
 2 tsk rifinn engifer
 3 msk ostrusósa
 2 msk sojasósa
 1 msk púðursykur
 2 tsk maísmjöl

Leiðbeiningar

1

Kjötið skorið í þunnar ræmur. Paprikan fræhreinsuð og skorin í sneiðar, sveppirnir skornir í sneiðar og sverustu stönglarnir klipnir af spínatblöðunum. Kasjúhneturnar ristaðar á þurri pönnu þar til þær eru rétt farnar að taka lit en síðan hellt á disk og látnar kólna. 2 msk af olíu hitaðar í wok eða á þykkbotna pönnu og kjötið snöggsteikt við háan hita þar til það hefur allt tekið lit. Tekið upp með gataspaða og sett á disk. Afganginum af olíunni bætt á pönnuna og paprika og sveppir veltisteikt í 3-4 mínútur. Þá er kjötið sett aftur á pönnuna ásamt kasjúhnetum, hvítlauk, chili, engifer, ostrusósu, sojasósu og púðursykri. Veltisteikt áfram í 2-3 mínútur. Maísmjölið hrært út í svolitlu köldu vatni og hrært saman við. Látið sjóða þar til sósan þykknar.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​