Kínverskur lambakjötsréttur

Kínverjar sjálfir mundu sennilega ekki nota lambakjöt í þennan rétt en það er vegna þess að þar er lítið um sauðfé nema í norðurhéruðunum. Þessi uppskrift hentar þó mjög vel fyrir meyrt lambakjöt, t.d. af læri.

Pottur og diskur

Hráefni

 500 g meyrt lambakjöt
 1 rauð paprika
 100 g sveppir
 250 g spínat
 175 g kasjúhnetur
 3 msk olía
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 2-3 þurrkuð chilialdin, mulin
 2 tsk rifinn engifer
 3 msk ostrusósa
 2 msk sojasósa
 1 msk púðursykur
 2 tsk maísmjöl

Leiðbeiningar

1

Kjötið skorið í þunnar ræmur. Paprikan fræhreinsuð og skorin í sneiðar, sveppirnir skornir í sneiðar og sverustu stönglarnir klipnir af spínatblöðunum. Kasjúhneturnar ristaðar á þurri pönnu þar til þær eru rétt farnar að taka lit en síðan hellt á disk og látnar kólna. 2 msk af olíu hitaðar í wok eða á þykkbotna pönnu og kjötið snöggsteikt við háan hita þar til það hefur allt tekið lit. Tekið upp með gataspaða og sett á disk. Afganginum af olíunni bætt á pönnuna og paprika og sveppir veltisteikt í 3-4 mínútur. Þá er kjötið sett aftur á pönnuna ásamt kasjúhnetum, hvítlauk, chili, engifer, ostrusósu, sojasósu og púðursykri. Veltisteikt áfram í 2-3 mínútur. Maísmjölið hrært út í svolitlu köldu vatni og hrært saman við. Látið sjóða þar til sósan þykknar.

Deila uppskrift