Kínverskur lambakjötsréttur með mintu

Fljótlegur og einfaldur austurlenskur lambakjötsréttur. Notið meyrt kjöt og skerið það mjög þunnt, þá þarf aðeins að steikja það í örfáar mínútur. Í staðinn fyrir hrísgrjón mætti líka hafa núðlur með kjötinu.

Pottur og diskur

Hráefni

 600 g meyrt lamba- eða kindakjöt, t.d. fillet
 2 msk. olía
 1 rauðlaukur, saxaður
 3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 1 rautt og 1 grænt chili-aldin, fræhreinsuð og skorin í þunnar sneiðar
 6 msk. ostrusósa
 2 msk. austurlensk fiskisósa
 3 msk. vatn
 1 tsk. sykur
 1 knippi fersk mintulauf

Leiðbeiningar

1

Skerið kjötið í mjög þunnar sneiðar, þvert á vöðvaþræðina. Hitið 1 msk. af olíu mjög vel í wok-pönnu eða á venjulegri, þykkbotna pönnu og snöggsteikið kjötið við háan hita í nokkrum skömmtum, aðeins þar til það hefur tekið lit á báðum hliðum. Takið það svo af pönnunni með gataspaða jafnóðum. Setjið svo afganginn af olíunni á pönnuna og steikið rauðlauk, hvítlauk og chili í 1-2 mínútur. Setjið kjötið aftur á pönnuna og síðan ostrusósu, fiskisósu, vatn og sykur. Saxið mestallt mintulaufið og hrærið saman við. Látið malla í 2-3 mínútur og berið síðan fram með soðnum hrísgrjónum. Skreytið með afganginum af mintulaufinu.

Deila uppskrift