Kínverskur lambakjötsréttur með mintu

Fljótlegur og einfaldur austurlenskur lambakjötsréttur. Notið meyrt kjöt og skerið það mjög þunnt, þá þarf aðeins að steikja það í örfáar mínútur. Í staðinn fyrir hrísgrjón mætti líka hafa núðlur með kjötinu.

Pottur og diskur

Hráefni

 600 g meyrt lamba- eða kindakjöt, t.d. fillet
 2 msk. olía
 1 rauðlaukur, saxaður
 3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 1 rautt og 1 grænt chili-aldin, fræhreinsuð og skorin í þunnar sneiðar
 6 msk. ostrusósa
 2 msk. austurlensk fiskisósa
 3 msk. vatn
 1 tsk. sykur
 1 knippi fersk mintulauf

Leiðbeiningar

1

Skerið kjötið í mjög þunnar sneiðar, þvert á vöðvaþræðina. Hitið 1 msk. af olíu mjög vel í wok-pönnu eða á venjulegri, þykkbotna pönnu og snöggsteikið kjötið við háan hita í nokkrum skömmtum, aðeins þar til það hefur tekið lit á báðum hliðum. Takið það svo af pönnunni með gataspaða jafnóðum. Setjið svo afganginn af olíunni á pönnuna og steikið rauðlauk, hvítlauk og chili í 1-2 mínútur. Setjið kjötið aftur á pönnuna og síðan ostrusósu, fiskisósu, vatn og sykur. Saxið mestallt mintulaufið og hrærið saman við. Látið malla í 2-3 mínútur og berið síðan fram með soðnum hrísgrjónum. Skreytið með afganginum af mintulaufinu.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​