Kínverskar lambakjötsnúðlur

Í þennan kínverska lambakjötsrétt eru notaðar sykurbaunir og mjög smátt skornar gulrætur sem þurfa stutta suðu, en einnig mætti nota annað smátt skorið grænmeti sem þarf skamma eldun, svo sem spergilkál.

Pottur og diskur

Hráefni

 300 g eggjanúðlur
 4-500 g meyrt lamba- eða kindakjöt, t.d. fillet
 2 msk. olía
 1 lítill rauðlaukur, saxaður
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 1 msk. ferskur engifer, saxaður smátt
 1 lítið rautt chili-aldin, fræhreinsað og skorið í þunnar sneiðar
 2 msk. rautt karrímauk (red curry paste)
 150 g sykurbaunir (snjóbaunir)
 1-2 gulrætur, skornar í mjóar ræmur
 150 ml vatn
 1 tsk. sykur
 safi úr 1 límónu

Leiðbeiningar

1

Hellið sjóðandi vatni yfir núðlurnar og látið standa í smástund, eða eldið þær í samræmi við leiðbeiningar á umbúðum. Skerið kjötið í mjög þunnar sneiðar þvert á vöðvaþræðina. Hitið 1 msk. af olíu vel í wok-pönnu eða á venjulegri, þykkbotna pönnu og snöggsteikið kjötið við háan hita. Steikið það í nokkrum skömmtum og takið það af með gataspaða þegar það hefur tekið lit á báðum hliðum. Setjið svo afganginn af olíunni á pönnuna og steikið rauðlauk, hvítlauk, engifer og chili í 1-2 mínútur. Setjið kjötið aftur á pönnuna, ásamt karrímauki, snjóbaunum og gulrótum. Hellið vatninu yfir og sjóðið í 2-3 mínútur. Bragðbætið með sykri og límónusafa. Látið renna af núðlunum í sigti og setjið þær svo á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur til viðbótar

Deila uppskrift