Kindakæfa

Áður fyrr var kæfa oftast gerð úr mjög feitu kjöti og mörgum þykir hún raunar best þannig en það er líka hægt að gera hana úr tiltölulega mögru kjöti. Einnig má nota slög, þindar og fleiri ódýra bita í kæfuna. Kæfugerð er tilvalið haustverk og hægt að frysta og bera fram eigin kæfu árið um kring.

Pottur og diskur

Hráefni

 2 kg súpukjöt, gjarna feitt
 2 lárviðarlauf
 2-3 msk salt
 sjóðheitt vatn
 2-3 laukar, saxaðir smátt
 1-2 tsk pipar
 1 tsk allrahanda, steytt

Leiðbeiningar

1

Kjötið sett í pott ásamt lárviðarlaufi og hluta af saltinu og sjóðheitu vatni hellt yfir; það á rétt að fljóta yfir kjötið. Soðið við fremur hægan hita þar til kjötið er svo meyrt að unnt er að tína beinin úr því með höndunum. Þá er kjötið tekið upp úr, beinhreinsað og hakkað ásamt mörnum. Laukurinn settur í soðið (svolitlu vatni eða kjötsoði bætt við ef þarf) og látinn malla nokkra stund. Soðið síað og látið sjóða niður þar til aðeins um ½ bolli er eftir. Þá er hakkið sett út í og hrært vel, kryddað með allrahanda og salti og pipar eftir smekk. Tekið af hitanum og hrært mjög vel, sett í mót og kælt.

Deila uppskrift