Karrí-lambapottréttur

Lambakjöt er ljúfmeti! Þessi uppskrift birtist í vorblaði Gestgjafans 2013 í umsjón Hönnu Ingibjargar Arnarsdóttur. 

Pottur og diskur

Hráefni

 700 g innanlæri, snyrt og skorið í strimla
 6 msk. olía
 1 rauðlaukur, saxaður
 2 msk. rautt karrímauk (red curry paste)
 1 tsk. kummin
 ½ laukur, saxaður
 2 msk. fersk engiferrót, skorin smátt 4 hvítlauksgeirar, smátt skornir
 1 ½ dós kókósmjólk
 1 kúrbítur, skorinn í teninga
 1 rauð paprika, skorin í strimla
 1 msk. mangómauk (chuteny)
 salt og svartur nýmalaður pipar kóríander

Leiðbeiningar

1

Setjið kjötið í skál, ásamt 3 msk. af olíunni, rauðlauk, karrímauki og kummin. Blandið öllu vel saman, setjið filmuplast yfir og geymið í kæliskáp í a.m.k. tvær klukkustundir eða yfir nótt.

2

Hitið 2 msk. af olíu í stórum potti og steikið laukinn í nokkrar mínútur og bætið engifer saman við og síðan hvítlauknum, laukblandan á að brúnast svolítið en ekki brenna.

3

Hellið lauknum á disk og bætið restinni af olíunni í pottinn, kryddið kjötið með pipar og salti og steikið vel þannig að það brúnist á öllum hliðum. Hellið laukblöndunni saman við ásamt kókósmjólkinni og látið malla í u.þ.b. 30 mínútur.

4

Setjið kúrbítinn saman við og sjóðið áfram í u.þ.b. 20 mínútur, bætið þá paprikunni út í og sjóðið í 10 mínútur til viðbótar. Bætið mangómaukinu saman við og bragðbætið eftir smekk.

5

Berið fram með kardimommuhrísgrjónum, mangómauki og ferskum kóríander.

6

Kardimommuhrísgrjón:

7

300 g gæðahrísgrjón
5 dl vatn
5-6 kardimommur, steyttar
1 msk. olía salt

8

Hitið olíuna í potti og látið kardimommurnar saman við, þegar þær eru farnar að ilma setjið þá hrísgrjónin saman við og hellið vatninu yfir, kryddið með smásalti. Látið lokið á og látið suðuna koma upp, lækkið þá hitann vel niður og látið malla í u.þ.b. 10 mínútur, takið af hitanum og látið standa í aðrar 10 mínútur.

9
Uppskriftin er úr Gestgjafanum. Umsjón: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir Myndir: Kristinn Magnússon

Deila uppskrift