Karabískur karríréttur

Á Karíbahafseyjum er reyndar allt eins líklegt að notað væri geitakjöt í þennan rétt, en hann er ekki síður góður ef notað er kindakjöt í hann. Auðvitað má líka nota lambakjöt en kjöt af fullorðnu er bragðmeira og nýtur sín betur í sterkri sósunni.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg kindakjöt, gjarnan læri
 3 msk olía
 1 laukur, saxaður
 1 lítill blaðlaukur, skorinn í sneiðar
 2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 rifinn börkur af 1 sítrónu
 1 msk karríduft, eða eftir smekk
 1 msk kummin, steytt
 1 tsk timjan, þurrkað
 nýmalaður pipar
 salt
 7 dl vatn
 500 g kartöflur

Leiðbeiningar

1

Kjötið beinhreinsað og skorið í fremur stóra gúllasbita (3-4 cm á kant). Olían hituð í stórum, þykkbotna potti eða í djúpri pönnu með loki og kjötið brúnað vel við háan hita. Hitinn lækkaður og lauk og blaðlauk bætt á pönnuna og hann steiktur í 2-3 mínútur. Þá er hvítlauk, sítrónuberki og kryddi hrært saman við og síðan vatninu. Hitað að suðu, lokað og látið malla við hægan hita í um 1 klst; hrært öðru hverju. Kartöflurnar afhýddar og skornar í helminga eða fjórðunga eftir stærð. Settar út í og soðið í 30-40 mínútur í viðbót. Sósan smökkuð til með pipar, salti og e.t.v. karrídufti og sítrónusafa (hún á að vera þunn en það má taka lokið af síðustu 10 mínúturnar og hækka hitann ef vill til að sjóða hana ögn niður). Borið fram með soðnum hrísgrjónum, eða blöndu af hrísgrjónum og baunum, t.d. augnbaunum.

Deila uppskrift