Jurtakryddað lambalæri á grillið

Grilltíminn fyrir læri sem grillað er við óbeinan hita fer m.a. eftir því hve stórt lærið er og hve vel gengur að halda hita í lokuðu grillinu. Ef kalt er í veðri, vindur er mikill eða sífellt er verið að opna grillið, þá þarf lærið mun lengri tíma og því er e.t.v. best að nota kjöthitamæli og slökkva á grillinu þegar hiti í miðjum vöðvanum er 60°-65°C, eftir smekk.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, um 2.5 kg
 3 – 4 hvítlauksgeirar
 2 msk þurrkað blóðberg eða 2 tsk timjan
 nýmalaður pipar
 salt

Leiðbeiningar

1

Skerið burt umframfitu af lærinu og fjarlægið e.t.v. mjaðmabeinið, eða látið gera það í kjötborðinu. Stingið nokkrar djúpar stungur í lærið með beittum hnífsoddi. Afhýðið hvítlauksgeirana, skerið þá í flísar og stingið einni flís í hverja rauf. Blandið saman blóðbergi eða timjani, pipar og salti og núið lærið vel á öllum hliðum með blöndunni. Látið það liggja í um 1 klst við stofuhita, eða í sólarhring eða lengur vel innpakkað í kæli eða kæliboxi, en best er að það sé ekki ískalt þegar það fer á grillið. (Einnig má nota ferskt blóðberg, nokkuð mikið af því, og þá er best að vefja álpappír eða plasti vel utan um og láta lærið liggja í a.m.k. tvo sólarhringa.) Kveikið á grillinu og hitið það vel. Setjið svo lærið á grillið, slökkvið á brennaranum sem undir því er en hafið hinn/hina á fullum straumi smástund. Lækkið svo hitann (ef hitamælir er á grillinu ætti hann að sýna 160°-180°C) og grillið lærið í um 1 klst. Hafið grillið sem allra mest lokað svo hitatap verði lítið. Ef grillið er með þremur brennurum þarf ekki að hreyfa við lærinu en ef þeir eru tveir er betra að snúa því tvisvar eða þrisvar.

2

Best er svo að láta lærið bíða í a.m.k. 10 mínútur áður en það er skorið. Berið það fram t.d. með grilluðum kartöflum og grænmeti, eða góðu grænmetissalati.

3

Ef notað er kolagrill er best að ýta kolunum til hliðanna og setja álbakka í miðjuna. Lærið er svo haft yfir honum, þannig að ekki séu glóandi kol beint undir því, og grillið haft sem allra mest lokað.

Deila uppskrift