Júgóslavnesk lambakjötssúpa

Súpur á borð við þessa eru eldaðar um allan Balkanskaga. Hér er grænmetið allt maukað en það mætti líka sleppa því, eða mauka aðeins hluta þess.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg lambakjöt (súpukjöt eða framhryggjarbitar)
 1.3 l vatn
 1 laukur, saxaður
 2-3 sellerístönglar, saxaðir
 1 græn paprika, fræhreinsuð og söxuð
 1 chili-aldin, fræhreinsað og saxað
 0.5 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir
 1 lárviðarlauf
 nýmalaður pipar
 salt
 2 msk. smjör
 2 msk. hveiti
 1 tsk. paprikuduft
 1 sítróna
 söxuð steinselja eða aðrar kryddjurtir

Leiðbeiningar

1

Setjið kjötið í pott, hellið köldu vatni yfir, hitið að suðu og fleytið froðu ofan af með gataspaða. Bætið öllu grænmetinu í pottinn, ásamt lárviðarlaufi, pipar og salti. Látið malla við hægan hita í um 1 klst., eða þar til kjötið er vel meyrt. Takið kjötið þá upp úr, fjarlægið bein og fitu og skerið það í munnbita. Hellið soðinu í gegnum sigti og maukið grænmetið í matvinnsluvél (eða pressið það í gegnum sigtið). Bræðið smjörið í pottinum og hrærið hveitinu og paprikuduftinu saman við. Hellið heitu soðinu saman við smátt og smátt og bakið súpuna upp. Hrærið grænmetismaukinu saman við, setjið kjötbitana út í, kreistið safa úr hálfri sítrónu og hrærið saman við og látið malla í 5-10 mínútur. Smakkið súpuna, bragðbætið með pipar, salti og e.t.v. meiri sítrónusafa, skreytið með kryddjurtum og berið fram.
Einnig má sleppa því að mauka grænmetið og hræra því bara saman við súpuna um leið og kjötinu.

Deila uppskrift