Innbakað lambafile með sveppum og furuhnetum

Ef meyrt kjöt er innbakað í deigi heldur það safanum sérlega vel og verður mjög meyrt og gott, en oftast er best að brúna það fyrst til að það verði bragðmeira. Svo er tilvalið að setja eitthvert góðgæti með í deigbögglana - til dæmis sveppi, sólþurrkaða tómata og furuhnetur.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 pakki blaðdeig (fillódeig)
 7-800 g kindafile (einnig má nota lambafile)
 100 g smjör
 250 g sveppir, saxaðir fremur smátt
 2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 1 msk. tímían, ferskt, saxað, eða 1 tsk. þurrkað
 6-8 sólþurrkaðir tómatar í olíu
 2 msk. furuhnetur
 nýmalaður pipar
 salt

Leiðbeiningar

1

Látið deigið þiðna í pakkanum. Hitið ofninn í 200°C. Skerið kjötið í 8 álíka stóra bita. Bræðið 2 msk. af smjöri á pönnu og látið sveppina og hvítlaukinn krauma í nokkrar mínútur ásamt tímíaninu. Skerið tómata í ræmur og bætið þeim á pönnuna ásamt furuhnetunum. Kryddið með pipar og salti, látið krauma í 1-2 mínútur í viðbót og hellið blöndunni svo á disk. Hitið pönnuna vel (bætið e.t.v. örlítilli olíu á hana), kryddið kjötið með pipar og salti og snöggbrúnið það á báðum hliðum við háan hita. Takið það svo af pönnunni. Bræðið afganginn af smjörinu. Takið deigið úr pakkanum og flettið því í sundur. Leggið eina deigþynnu á bretti, penslið hana með smjöri, leggið aðra deigþynnu ofan á, penslið hana einnig og leggið þá þriðju þar ofan á. Skerið þynnurnar í fjóra jafnstóra búta. Setjið u.þ.b. eina matskeið af sveppablöndunni á hvern bút, leggið kjötbita þar ofan á, setjið svolítið meira af sveppablöndunni ofan á og pakkið kjötinu inn í deigið. Leggið bögglana á pappírsklædda bökunarplötu með samskeytin niður. Endurtakið með afganginn af deiginu og kjötinu. Penslið bögglana með því sem eftir er af smjörinu, setjið í ofninn og bakið í 15-20 mínútur, eða þar til deigið hefur tekið góðan lit.

2

Í staðinn fyrir blaðdeigið má nota smjördeig. Það er þá látið þiðna og síðan eru plöturnar flattar út fremur þunnt, hverri plötu skipt í tvennt og deiginu svo pakkað utan um kjötið og sveppablönduna.

Deila uppskrift