Indverskur lambakarríréttur II

Þessi réttur og íslenskt kjöt í karríi eiga satt að segja ákaflega fátt sameiginlegt nema nafnið og lambakjötið. Þetta er þó dálítið einfölduð útgáfa af indverskum karrírétti, indverskar húsmæður væru líklegar til að nota fleiri kryddtegundir en hér er gert og steikja kjötið upp úr ghee (skírðu smjöri). En rétturinn er gómsætur engu að síður. Garam masala er indversk kryddblanda, til í ótal útgáfum (nafnið þýðir bara ,,sterk blanda”) sem yfirleitt er ekki notuð út í réttinn, heldur stráð yfir hann í lokin eða þegar hann er kominn á borðið.

Pottur og diskur

Hráefni

 600 g lambakjötsbitar eða strimlar
 4 msk. olía
 2 laukar
 3 – 4 hvítlauksgeirar
 1 msk engiferrót, söxuð smátt
 1.5 tsk. kummin (cumin), malað
 1 tsk kóríanderfræ, möluð
 1 tsk túrmerik
 0.25 tsk. chilipipar (malaður), eða eftir smekk
 nýmalaður pipar
 salt
 1 kanelstöng
 2 lárviðarlauf
 400 ml vatn
 350 g blómkál
 200g strengjabaunir
 0.5 tsk. garam masala (má sleppa)

Leiðbeiningar

1

Olían hituð á stórri pönnu. Laukur, hvítlaukur og engifer saxað og látið krauma á pönnunni við meðalhita í nokkrar mínútur. Kryddinu stráð yfir, hrært og látið krauma í nokkrar mínútur í viðbót, þar til allt er farið að ilma vel. Þá er kjötinu bætt á pönnuna smátt og smátt og hrært oft á meðan. Látið krauma þar til kjötið hefur allt tekið lit. Vatni hellt á pönnuna og látið malla við hægan hita í 30-40 mínútur, eða þar til kjötið er meyrt. Blómkálinu skipt í litla kvisti og strengjabaunirnar skornar í 3-4 sm búta. Grænmetið sett á pönnuna og látið malla áfram undir loki í um 8 mínútur. Kjötið sett á fat, svolitlu garam masala e.t.v. stráð yfir, og borið fram með soðnum hrísgrjónum og e.t.v. naan-brauði.

Deila uppskrift