Indónesískir lambagrillpinnar

Satay er heiti sem í Indónesíu er bæði notað um grillað kjöt á teini og einnig um sósur sem kjötið er marinerað í og/eða borið fram með. Hér er þó ekki notuð sataysósa í marineringuna en hún er mjög góð með.

Pottur og diskur

Hráefni

 600-800 g lambakjöt, beinlaust (t.d. af læri)
 1 laukur
 2-3 hvítlauksgeirar
 1 chili-aldin, fræhreinsað
 2 sm bútur af engifer
 1 dl kókosmjólk
 safi úr 1 límónu
 1 msk. sojasósa, gjarna indónesísk
 1 msk. púðursykur
 1 tsk. kóríander, malaður
 salt

Leiðbeiningar

1

Skerið kjötið í fremur stóra gúllasbita, 3-4 sm á kant, og setjið þá í skál. Skerið lauk, hvítlauk og chili í bita og rífið engiferið. Setjið þetta í matvinnsluvél eða blandara ásamt kókosmjólk, límónusafa, sojasósu, púðursykri og kóríander og látið ganga þar til allt er orðið að mauki. Hellið maukinu yfir kjötið og blandið vel. Látið standa í kæli í 2-4 klukkutíma. Hitið þá grillið. Þræðið kjötbitana upp á teina og saltið svolítið. Grillið kjötið þar til það er rétt tæplega steikt í gegn, eða í 8-10 mínútur. Snúið teinunum nokkrum sinnum á meðan. Berið fram með soðnum hrísgrjónum og satay-sósu eða annarri sósu.

Deila uppskrift