Hvítlauksmauk

Þetta hvítlauksmettaða mauk má nota til að bragðbæta ýmsar heitar og kaldar sósur sem bornar eru fram með lambakjöti, svo og súpur og pottrétti.

Pottur og diskur

Hráefni

 4-6 heilir hvítlaukar, sem stærstir og safaríkastir
 150 ml ólífuolía
 nokkrar timjangreinar eða 1 tsk þurrkað timjan
 2 lárviðarlauf

Leiðbeiningar

1

Ofninn hitaður í 175 gráður. Hvítlaukarnir skornir í sundur þvert yfir en ekki afhýddir. Raðað í eldfast fat, nægilega stórt til að rúma þá í einföldu lagi; skurðflöturinn á að snúa upp. Olíunni hellt yfir og timjani og lárviðarlaufi stráð á milli laukanna. Sett í ofninn og bakað í 40-45 mínútur. Olíunni ausið yfir laukana öðru hverju. Þegar hvítlaukurinn er vel meyr og ljósgullinbrúnn er hann tilbúinn. Þá er fatið tekið út og laukurinn látinn kólna ögn en síðan skafinn úr hýðinu með teskeið og settur í skál. Hrærður eða stappaður með trésleif eða gaffli þar til hann er orðinn að mauki.

Deila uppskrift