Hvítlaukslambalæri

Hér er ekki verið að spara hvítlaukinn, og þar sem kjötið er steikt lengi við hægan hita verður það alveg gegnmettað af hvítlauksbragðinu. Réttur fyrir sanna hvítlauksvini.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, um 2.5 kg
 1 tsk timjan
 nýmalaður pipar
 salt
 40-50 hvítlauksgeirar
 2 msk olía
 3 msk brandí
 250 ml soð, hvítvín eða vatn

Leiðbeiningar

1

Ofninn hitaður í 115 gráður. Lærið e.t.v. fitusnyrt dálítið og núið vel með timjani, pipar og salti. Hvítlauksgeirarnir afhýddir en ekki pressaðir eða saxaðir. Olían hituð á stórri pönnu eða í steikarfati og lærið brúnað létt. Brandíinu hellt yfir, eldur borinn að og lærið eldsteikt (þessu má líka sleppa). Soði, víni eða vatni hellt á pönnuna þegar logarnir deyja út og hitað að suðu. Lærið fært yfir í steikarfat eða ofnskúffu ef það var brúnað á pönnu, soðinu hellt í fatið og hvítlauksgeirunum dreift í kring. Lok sett yfir (eða álpappír lagður yfir og brotinn niður fyrir barmana til að mynda nokkuð þétt lok). Sett í ofninn, steikt í um 6 klst og soði e.t.v. ausið yfir lærið u.þ.b. á klukkutíma fresti – það er þó ekki nauðsynlegt og óhætt að láta lærið alveg óhreyft. Í lokin er hitinn svo hækkaður í 200 gráður, álpappírinn tekinn af og lærið brúnað í um 15 mínútur, eða þar til það hefur tekið góðan lit. Látið standa í 10-15 mínútur áður en það er skorið. Hvítlaukssósan bragðbætt með pipar og salti eftir smekk og borin fram með.

Deila uppskrift