Hvítlauks- og rósmarínkryddaðir lambaskankar með grænmeti

Þessi suður-evrópski lambakjötsréttur er bragðmikill og góður og hentar vel fyrir skanka eða annað kjöt sem þarf langa og hæga eldun. Grænmetið er eldað með kjötinu.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 kg lambaskankar (leggir)
 4 msk ólífuolía
 2-3 rósmaríngreinar
 1 sítróna
 6 hvítlauksgeirar
 nýmalaður pipar
 salt
 150 ml rauðvín, soð eða vatn
 8-12 kartöflur
 3-4 gulrætur
 1 gulrófa

Leiðbeiningar

1

Ofninn hitaður í 225 gráður. Skankarnir þerraðir og umframfita e.t.v. skorin burtu. 2 msk af olíu dreift í nokkuð stórt, eldfast fat og skönkunum velt upp úr henni og þeir síðan kryddaðir með pipar og salti. Rósmaríngreinarnar skornar í búta, sítrónan skorin í þunnar sneiðar og hvítlauksgeirarnir afhýddir og marðir en ekki pressaðir eða saxaðir. Hluta af þessu dreift á botninn á eldfasta fatinu, skankarnir lagðir ofan á og afganginum af rósmaríninu, sítrónusneiðunum og hvítlauknum dreift yfir. Sett í ofninn. Eftir um 15 mínútur er hitinn lækkaður í 175 gráður og víni, soði eða vatni (ef notað er vatn er gott að bæta smáskvettu af rauðvínsediki út í) hellt í fatið. Steikt í 25 mínútur í viðbót og á meðan eru kartöflurnar afhýddar og skornar í helminga, nema þær séu mjög litlar. Gulræturnar afhýddar og skornar í 3-4 cm bita og gulrófan afhýdd og skorin í teninga, 4-5 cm á kant. Velt upp úr afganginum af olíunni, kryddað með pipar og salti og dreift í kringum skankana í eldfasta fatinu. Steikt áfram í 30-40 mínútur í viðbót, eða þar til grænmetið er meyrt. Borið fram í fatinu og óþykkt soðið haft með sem sósa.

Deila uppskrift