Hvítlauks-lambahryggur

Hvítlaukur er krydd sem flestum þykir eiga einkar vel við lambakjöt. Það er sannarlega ekki verið að spara hvítlaukinn í þessari uppskrift en það er einmitt hann sem gerir bragðið svona gott.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambahryggur, um 2 kg
 1 heill hvítlaukur
 2 brauðsneiðar, helst hálfþurrar
 1 msk ferskt rósmarín, saxað smátt (eða 1 tsk þurrkað)
 1 tsk oregano, þurrkað
 nýmalaður pipar
 salt
 2 msk smjör, bráðið
 250 ml kjötsoð (eða vatn og súpukraftur), og meira ef þarf

Leiðbeiningar

1

Ofninn hitaður í 200°C. Lambahryggurinn fitusnyrtur að nokkru leyti. Hvítlauksgeirarnir afhýddir, skornir í 2-3 flísar hver og síðan er mjóum hnífsoddi stungið í hryggvöðvann á mörgum stöðum og hvítlauksflís stungið í hverja rauf. Brauðið sett í matvinnsluvél og mulið í mylsnu (einnig má merja það í gegnum sigti eða þurrkað það alveg og mylja). Rósmaríni, oreganoi, pipar og salti blandað saman við. Hryggurinn settur í ofnskúffu og penslaður með bráðnu smjöri. Krydduðu brauðmylsnunni dreift jafnt yfir og þrýst vel niður. Sett í ofninn og steikt í um 20 mínútur en þá er soðinu hellt í skúffuna, hitinn lækkaður í 160°C og steikt áfram í 30-45 mínútur, eftir því hve óskað er eftir að kjötið sé mikið steikt. Soði eða vatni bætt við eftir þörfum. Þegar hryggurinn er steiktur er hann settur á fat og álpappír breiddur lauslega yfir. Soðinu hellt í pott, hitað að suðu, smakkað til með pipar og salti og e.t.v. þykkt ögn með sósujafnara, en sósan á að vera þunn. Borið fram t.d. með bökuðum kartöflum og soðnu eða léttsteiktu grænmeti.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​