Holugrillað lambalæri

Um og upp úr 1980 varð mjög vinsælt á Íslandi að grilla lambakjöt í gryfju sem grafin var í jörðina og tyrft yfir. Þetta er enn algengt, enda mjög hentug aðferð þar sem aðstæður leyfa. Gott er að krydda kjötið með nýtíndu blóðbergi.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 vænt lambalæri
 hnefafylli af blóðbergi eða 1-2 tsk þurrkað timjan
 1 msk ferskt rósmarín, saxað, eða 1 tsk þurrkað
 4 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 nýmalaður pipar
 salt
 4 msk ólífuolía

Leiðbeiningar

1

Lærið e.t.v. fitusnyrt ögn. Blóðbergið saxað gróft, ef það er notað, og síðan er kryddjurtum, hvítlauk, pipar, salti og olíu blandað saman og núið vel inn í kjötið. Álpappír brotinn tvöfaldur, vafið vel utan um kjötið, og lærið svo látið bíða í kæli í hálfan til einn sólarhring. Grillgryfjan undirbúin – margfalt lag af álpappír sett á botninn og upp með hliðunum og kolin höfð þar ofan á. Þegar þau eru orðin grá er lærið sett á þau og kolunum ýtt upp að því, holunni hálflokað með torfu, og síðan er lærið látið grillast í 30-40 mínútur. Þá er því snúið og grillað í hálftíma í viðbót. Tekið út og látið standa í um 10 mínútur áður en álpappírinn er tekinn utan af og það borið fram.

Deila uppskrift