Heitt hangikjötssalat

Stundum verða töluverðir afgangar af jólahangikjötinu og þótt það sé afskaplega gott eins og það kemur fyrir vilja margir tilbreytingu þegar að því kemur að nýta leifarnar. Það er sannarlega hægt að gera fleira en að bera kjötið fram kalt eða hita það í tartalettum; satt að segja henta margar uppskriftir sem ætlaðar eru fyrir skinku, hamborgarhrygg eða annað reykt svínakjöt ágætlega fyrir hangikjöt líka og það er óhætt að leyfa hugmyndafluginu að ráða svolítið.

Pottur og diskur

Hráefni

 4-500 g soðið hangikjöt
 100 g þurrkaðar apríkósur og/eða sveskjur
 2 msk. olía
 1 tsk. paprikuduft
 nýmalaður pipar
 nokkrar tímíangreinar
 1 tsk. rósapipar
 spínat eða salatblöð

Leiðbeiningar

1

Skerið hangikjötið í teninga og apríkósur og sveskjur í bita. Hitið olíuna á pönnu, setjið hangikjötsteningana og ávextina á pönnuna, kryddið með paprikudufti, pipar, tímíani og rósapipar og steikið við meðalhita í nokkrar mínútur. Hrærið oft í á meðan; kjötið á að hitna í gegn og e.t.v. brúnast örlítið. Raðið spínat- eða salatblöðum í víða skál eða á fat, hellið hangikjötsblöndunni yfir og berið fram.

Deila uppskrift