Gufusteiktir lambaskankar með lauk

Lambaskankar eða leggir eru bragðmikill og gómsætur matur ef þeir eru rétt matreiddir. Yfirleitt er best að elda þá lengi við fremur vægan, rakan hita, þ.e. gufusteikja þá eða pottsteikja, og það er einmitt gert hér. Það mætti elda réttinn fram að þeim tíma þegar meiri lauk er bætt í pottinn en taka hann þá úr ofninum, kæla og geyma til næsta dags. Þá er hann hitaður upp, lauknum bætt út í og rétturinn eldaður til fulls. Þannig verður hann enn betri en ella.

Pottur og diskur

Hráefni

 2 msk ólífuolía
 4 lambaskankar (leggir)
 nýmalaður pipar
 salt
 2 laukar
 6 hvítlauksgeirar
 250 ml þurrt hvítvín
 500 ml vatn
 1 msk herbes de provence (einnig mætti nota t.d. ítalska kryddjurtablöndu)
 2-3 lárviðarlauf
 200 g skalottlaukur
 nokkrir litlir rauðlaukar
 2-3 stórir blaðlaukar

Leiðbeiningar

1

Hitið ofninn í 165°C. Hitið olíuna í víðum, þykkbotna potti sem þolir að fara í ofninn, kryddið skankana vel með pipar og salti og brúnið þá á öllum hliðum. Skerið laukana í fjórðunga, setjið þá á milli skankanna og hellið víninu yfir og síðan vatninu. Kryddið með kryddjurtablöndu og lárviðarlaufum, hitið að suðu, leggið lok yfir og setjið í ofninn. Látið malla í 2 1/2 klst. Afhýðið á meðan skalottlaukinn og rauðlaukana og skerið rauðlaukana í helminga eða fjórðunga. Setjið þá út í og steikið í 15-20 mínútur í viðbót. Skerið grænu blöðin af blaðlaukunum, hreinsið þá vel og skerið þá í 8-10 cm búta. Setjið þá í pottinn og látið malla í 10-15 mínútur í viðbót, eða þar til blaðlaukurinn er meyr. Smakkið soðið, bragðbætið með pipar og salti eftir þörfum og berið kjötið fram með lauknum og soðinu. Með þessu er líka gott að hafa t.d. ofnbakaðar kartöflur, gulrætur og gulrófur, eða kartöflustöppu bragðbætta með t.d. hvítlauk eða selleríi.

Deila uppskrift