Grilluð lambalifur á teini

Hægt er að gera ýmislegt við lambalifur annað en steikja hana á pönnu og bera fram með brúnni sósu. Hafið þið til dæmis prófað að skera hana í bita og steikja á teini?

Pottur og diskur

Hráefni

 500 g lambalifur
 12-16 perlulaukar
 12-16 litlar beikonsneiðar
 25 g smjör
 2 msk balsamedik
 nýmalaður pipar
 salt
 1 msk ferskt timjan (má sleppa)

Leiðbeiningar

1

Lifrin hreinsuð og skorin í teninga, um 2,5-3 cm á kant. Laukurinn settur í pott með sjóðandi vatni og soðinn í 4-5 mínútur en síðan hellt í sigti, látinn kólna ögn og svo afhýddur. Beikonsneið vafið um hvern lifrarbita og þeir síðan þræddir á teina til skiptis við perlulaukinn. Grillið hitað. Á meðan er smjörið brætt í potti, edikinu hrært saman við og kryddað með pipar og salti. Lifrarbitarnir og laukurinn penslað með smjörinu og síðan eru teinarnir settir á grillið og grillaðir í 6-8 mínútur, eða þar til beikonið er stökkt og lifrin orðin steikt. Snúið nokkrum sinnum og penslað með smjörinu. Pinnarnir eru svo settir á fat, söxuðu timjani e.t.v. stráð yfir, og borið fram, t.d. með soðnum kartöflum og/eða grilluðu grænmeti.

Deila uppskrift