Grilluð lambahjörtu
- 40+ mín
- 4
Hráefni
Leiðbeiningar
Lambahjörtu eru sannarlega vanmetið hráefni sem getur verið hátíðarmatur við rétta meðhöndlun, hjörtu þarf annað hvort að elda mjög lengi, eða örstutt eins og hér er gert. Við leggjum til að fólk prófi sig áfram með þessa skemmtilegu uppskrift kokksins Gísla Matt frá Slippnum í Vestmannaeyjum, en rétturinn hefur m.a. ratað á borð í forsetaveislu á Bessastöðum og er í nýútkominni bók hans, Slippurinn.
Gísli Matt eldar hjörtun létt, helst á kolagrilli en pönnusteiking gengur líka vel upp. Bragðið af rauðrófum, piparrót, birki og íslenskum jurtum minna okkur svo á íslensk jól.
Hreinsið fituna að mestu utan af hjörtunum, skerið frá u.þ.b. ½ cm af efsta hlutanum sem er seigur. Skerið hjörtun í helminga og hreinsið sinina sem liggur innan á þeim, skerið aftur til helminga svo hvert hjarta endi í fjórum bitum.
Hjörtun eru lögð í vökva úr soja sósu, með söxuðum sölvum, pressuðum hvítlauksgeira og ólífuolíu, látið marinerast þétt pökkuðu í a.m.k. í 6 klst.
Lambahjörtun eru grilluð á heitu grilli eða pönnu í um 1 mínútu á hvorri hlið, eiga að vera létt steikt, og gott er að krydda með smá svörtum pipar eftir eldun
Lambahjörtunum er síðan leyft að hvíla í 3-4 mínútur áður en þau eru borin fram. Það er skemmtilegt að hafa þau á prjónum eða trjágreinum (eins og á myndinni) en ekki nauðsynlegt.
Sjóðið rauðrófusafann niður um helming (50%). Bætið eplaediki, birkisírópi og fisksósu saman við. Takið af eldavélinni og pískið smjörinu saman við, smakkið til með salti og bætið við ediki ef vantar meiri sýru.
Grófhreinsið timían takið grófustu stilkana frá og setjið timían og olíu í jöfnum hlutföllum í matvinnsluvél og blandið á hæstu stillingu þar til olían nær 60°C eða u.þ.b. 10 mín. Ferlið og hitinn leysir bragð og lit úr jurtinni yfir í olíuna.
Sigtið í gegnum síudúk eða fínt stykki og smakkið til með salti í lokin.
Eftir eldun, penslið hjörtun duglega með rauðrófugljáa og setjið á diska, bætið rauðrófugljáa við á diskana og síðan olíunni. Skreytið með jurtum.