Grillaður lambahryggur að marokkóskum hætti

Víðast hvar erlendis er lambahryggur yfirleitt ekki eldaður heill, heldur sagaður eftir endilöngu, og erlendar uppskriftir miðast gjarna við slíka bita. Einnig er algengast að hreinsa kjöt og fitu af rifjaendunum. Nú er hægt að fá hrygginn verkaðan á þennan hátt í sumum verslunum hérlendis (lambakóróna).

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambahryggur, sagaður eftir endilöngu
 1 laukur
 3 hvítlauksgeirar
 2 tsk. kummin (cumin)
 2 tsk. kóríander
 2 tsk. paprikuduft
 0.5 tsk. kanill
 0.5 tsk. engifer
 nýmalaður pipar
 salt
 4 msk. ólífuolía

Leiðbeiningar

1

Látið saga hrygginn sundur eftir endilöngu þannig að hryggsúlan sé söguð frá, eða skerið niður með hryggsúlunni alveg niður að rifjum og höggvið hryggsúluna svo frá með þungum hníf eða kjötexi. Gerið skurð eftir endilöngum hryggnum, u.þ.b. 2 sm utan við hryggvöðvann, og hreinsið allt kjöt og fitu af rifjaendunum. Rífið laukinn á rifjárni eða saxið hann mjög smátt í matvinnsluvél. Pressið eða saxið hvítlaukinn og blandið honum saman við, hrærið svo öllu kryddinu saman við og að síðustu olíunni. Smyrjið kryddmaukinu á kjötið, setjið það í eldfast fat og látið standa í kæli í nokkrar klukkustundir. Takið það síðan út og hitið grillið. Setjið kjötið á heita ristina og grillið það eftir smekk (10-12 mínútur, við meðalhita, á hvorri hlið fyrir kjöt sem er vel bleikt í miðju, en þetta fer þó eftir þykkt vöðvans). Snúið því nokkrum sinnum og færið það til eftir þörfum ef logar gjósa upp. Verjið e.t.v. rifjaendana með álpappír ef þeir fara að brenna að ráði. Takið kjötið af grillinu þegar það er hæfilega grillað og látið standa í nokkrar mínútur áður en það er skorið. Berið fram með sítrónubátum og kúskús eða soðnum hrísgrjónum.

Deila uppskrift