Grillaðar lambakótelettur með balsamediksósu

Kótilettur eru alltaf vinsælar á grillið og það er gott að láta þær liggja í kryddlegi drjúga stund áður en þær eru grillaðar. Afganginn af kryddleginum má svo nota út í sósu á kótiletturnar, eins og hér er gert.

Pottur og diskur

Hráefni

 12-16 lambakótilettur
 3 msk balsamedik
 3 msk hvítlauksolía (eða ólífuolía og 2 saxaðir hvítlauksgeirar)
 nokkur basilíkublöð, söxuð
 nokkur mintulauf, söxuð, eða 0.5 tsk þurrkuð minta
 0.5 tsk oregano, þurrkað
 nýmalaður pipar
 salt
 150 ml hvítvín
 svolítið hunang eða sykur
 1 tsk maísmjöl

Leiðbeiningar

1

Kótiletturnar þerraðar og e.t.v. fituhreinsaðar að einhverju leyti. Balsamedik, olía, kryddjurtir og pipar hrært saman í skál. Kótilettunum velt upp úr leginum og þær látnar standa við stofuhita í hálftíma, eða í kæli í allt að 6 klst. Snúið öðru hverju. Útigrill eða grillið í ofninum hitað. Kótiletturnar teknar úr leginum (en hann geymdur), raðað á grind og þær saltaðar og grillaðar í 4-6 mínútur á hvorri hlið. Á meðan er afgangurinn af leginum settur í pott ásamt hvítvíni, hitað að suðu og látið sjóða rösklega í nokkrar mínútur. Smakkað til með hunangi eða sykri, pipar og salti, og síðan er maísmjölið hrært út í svolitlu köldu vatni og hrært út í til að þykkja sósuna ögn. Kótiletturnar bornar fram með sósunni, ásamt t.d. soðnum hrísgrjónum eða steiktum eða grilluðum kartöflum.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​