Grillað lambalæri með Miðjarðarhafssvip

Þessi réttur krefst nokkurrar fyrirhafnar en útkoman réttlætir hana fyllilega. Lærið er kryddað með hvítlauk, sólþurrkuðum tómötum og fleiru og síðan grillað á útigrilli við óbeinan hita.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, um 2 kg
 1 vorlaukur, saxaður
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 4-5 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
 1 msk próvensölsk kryddjurtablanda (herbes de provence)
 nýmalaður pipar
 salt
 4 msk ólífuolía

Leiðbeiningar

1

Lærið þerrað og mjaðmarbeinið skorið burt. Vorlauk, hvítlauk, tómötum, kryddjurtablöndu, pipar, salti og olíu blandað vel saman í skál. Mjóum hníf stungið djúpt í lærið, meðfram lærleggnum, og mestallri blöndunni troðið þar í. Nota má sleifarskaft til að ýta henni inn. Olíunni og kryddinu sem eftir er í skálinni er svo núið utan á lærið og síðan er það látið standa við stofuhita í hálfa til eina klukkustund. Á meðan er grillið hitað vel. Áður en lærið er sett á það er svo álbakki settur í miðjuna (kolagrill) eða slökkt á öðrum brennaranum. Lærið lagt á grillið þeim megin sem slökkt er, lokað og grillað við meðalhita í um 1½ klst – tímalengdin fer m.a. eftir því hve oft grillið er opnað. Ekki ætti að þurfa að snúa lærinu nema einu sinni eða tvisvar. Lærið er svo látið standa, annaðhvort á grillinu eða undir yfirbreiðslu, í a.m.k. 15-20 mínútur áður en það er skorið. Lærið ætti allt að taka jafnan og fallegan lit án þess að brenna nokkurs staðar en sé þess óskað að fá það dekkra þarf bara að færa það yfir brennarann sem kveikt er á í lokin, kannski í 10-15 mínútur, og fylgjast þá vel með því.

Deila uppskrift