Grillað lamba shawarma með vorlaukssósu og agúrkusalati

Grillað lamba shawarma
Lamba Shawarma

Hráefni

Vorlaukssósa með jalapeó-pipar
 1 búnt vorlaukur
 1 jalapeno-pipar, skorinn í tvennt lansum
  hnefafylli basilíka
 40 ml sítrónusafi
  ½ – 1 tsk. sjávarsalt
  125 ml ólífuolía
 3 msk. jógúrt, hreint
Agúrkusalat og sýrður rauðlaukur
 1 agúrka, skorin í þunnar lengjur
 2 msk. dill
 1-2 msk. ólífuolía
 u.þ.b. ½ tsk. sjávarsalt
  u.þ.b. ⅛ tsk. svartur pipar, nýmalaður
  1 rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
  ½ sítróna, safi nýkreistur
 1 tsk. sumac
Lamba shawarma
 1 heill hvítlaukur, toppur skorinn af
 2 msk. ólífuolía
  2 sítrónur, safi og börkur rifinn fínt
 1 tsk. paprika
 1 tsk. kummin
 1 tsk. kóríander, malaður
 ½ tsk. kanill
 2 tsk. sjávarsalt
 u.þ.b. 1 tsk. svartur pipar, nýmalaður
 1.5 kg lambalæri, úrbeinað
 2-3 límónur, skornar til helminga
 8 -10 lítil flatbrauð
 250 g grísk jógúrt
  ½ – 1 msk. sriracha-sósa, eða önnur ósæt chili-sósa

Leiðbeiningar

Vorlaukssósa með jalapeó-pipar
1

Grillið vorlauk og jalapenó á háum hita þar til hráefnið hefur fengið á sig góðan lit, u.þ.b. 5-7 mín. Setjið yfir á bretti og skerið smátt, látið í skál.

2

Hrærið saman við basilíku, sítrónusafa, salti og ólífuolíu. Hrærið jógúrt saman við og bragðbætið sósuna með salti.

Agúrkusalat og sýrður rauðlaukur
3

Setjið skorna agúrku í skál og blandið saman við dilli, ólífuolíu, ¼ tsk. salti og ⅛ tsk. pipar, setjið til hliðar.

4

Setjið skorinn rauðlauk í litla skál og blandið saman við sítrónusafa, sumac kryddi og ¼ tsk. af salti, hér er gott að nota fingurna til að nudda kryddinu saman við laukinn. Látið standa í a.m.k. 5 mín. áður en borið er fram.

Lamba shawarma
5

Hitið ofn í 200°C. Dreypið ólífuolíu yfir hvítlaukinn og pakkið honum inn í álpappír. Bakið hvítlaukinn í 1 klst. eða þar til hann er mjög mjúkur. Látið kólna örlítið og kreistið því næst hvítlaukinn úr hýðinu yfir í skál.

6

Stappið hann með gaffli og hrærið saman við sítrónubörk, sítrónusafa, papriku, kummin, kóríander, kanil, 2 msk. af ólífuolíu, 1 tsk. af salti og ½ tsk. af pipar.

7

Setjið kjötið yfir í djúpt fat og hellið kryddblöndunni yfir, nuddið vel yfir allt kjötið. Leggið filmu yfir og kælið yfir nótt. Takið kjötið úr kæli og látið ná stofuhita fyrir eldun.

8

Hitið grill og hafið á miðlungsháum hita. Grillið kjötið í u.þ.b. 15 mín. á hvorri hlið eða þar til kjarnhitinn er 51°C – 54°C. Setjið kjötið yfir á bretti, leggið álpappír yfir og látið hvíla í a.m.k. 10 mín. áður en það er skorið.

9

Setjið límónur á grillið og látið sárið snúa niður, grillið í nokkrar mín. Penslið flatbrauð með örlítilli olíu og grillið í nokkrar sek. á hvorri hlið. Setjið jógúrt í skál og hrærið saman við chili-sósu. Skerið kjötið í þunnar sneiðar og berið fram með flatbrauði, agúrkusalati, sýrðum rauðlauk, grískri jógúrt og grilluðum límónum til að kreista yfir.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​