Grillað lamba-innralæri með Earl Gray- og Green Te-hjúp ásamt gljáðum nýjum gulrótum og smjörsteiktum sítrónuaspas

Grillað lamba-innralæri með Earl Gray- og Green Te-hjúp ásamt gljáðum nýjum gulrótum og smjörsteiktum sítrónuaspas
Pottur og diskur

Hráefni

 1 lamba-innralæri
 2 tepokar af Earl Grey
 2 pokar af grænu tei
 1 tsk. svartur pipar
 1 tsk. fáfnisgras þurrkað
 1 tsk. sjávarsalt
 ½ tsk. tímían þurrkað
 1 stk. anísstjarna

Leiðbeiningar

1

Hitið ofninn í 180°C. Setjið allt í blandara og látið hann ganga þar til allt verður að mjög fínu dufti. Makið þessu á lambið um 5 mín. áður en það er eldað. Gott er að setja ólífuolíu á lambið helst 3-5 dögum fyrr og geymið í kæli með plastfilmu yfir þar til 2 dagar eru til neyslu, takið þá plastfilmuna af og látið lærið standa bert inn í kæli. Reynið að halda sem næst 2°C í kæli. Þetta brýtur niður kjötið og gerir það meyrara. Hreinsið lambið, berið því næst olíu og síðan teduftið á lambið. Steikið á háum hita á pönnu, með fituhliðina niður, fyrst 5 mínútur á hvorri hlið og setjið inn í ofn í 15-17 mínútur eða þar til kjarnhitinn er komin í 58°C. Takið kjötið út og látið hvíla í 8 mín. áður en það er skorið.

2

Sítrónuaspas:

3

50 g af smjöri
1 búnt ferskur aspas, neðsti parturinn skorinn af
2 sítrónur

4

Hitið smjörið á meðalheitri pönnu, rífið börkinn af sítrónunni en passið að taka ekki hvíta hlutann því hann er mjög beiskur, kreistið því næst safann úr sítrónunni.

5

Setjið aspasinn í smjörið og hellið bæði safanum og berkinum af sítrónunni yfir aspasinn og sjóðið í smjörinu þar til aspasinn verður mjúkur, eða í um 10 mínútur.

6

Gljáðar gulrætur:

7

1 poki gulrætur helst íslenskar
50 gr. hunang
salt og pipar eftir smekk
2 msk. vorlaukur, fínt skorinn til að skreyta með

8

Hitið ofninn í 180°C. Gulrætur settar í eldfast mót og hunangið yfir, kryddað og sett inn í ofn í 25 mínútur eða þar til gulræturnar eru mjúkar.

9

Setjið aspasinn og sósuna af honum á 4 diska. Skerið kjötið í sneiðar og raðið ofan á aspasinn. Raðið gulrótum á diskinn og skreytið með vorlauk.

10
Uppskriftin er úr Gestgjafanum. Umsjón: Hinrik Karl Ellertsson Myndir: Karl Petersson Stílisti: Ólöf Jakobína Ernudóttir

Deila uppskrift