Fljótlegt indverskt lambakarrí

Þótt þessi réttur kallist karrí er ekki notað neitt karríduft í hann - karrí þýðir í rauninni "sósa" og Indverjar nota ekki tilbúnar karríblöndur, heldur blanda saman ýmsum tegundum af kryddi. Þetta er mjög einföld og fljótleg útgáfa af indverskum karrírétti.

Pottur og diskur

Hráefni

 6-700 g lambakjöt, beinlaust (t.d. framhryggur)
 3 msk. olía
 1 laukur, saxaður
 3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 1 msk. garam masala
 1 tsk. kummin
 1 tsk. engifer
 0.5 tsk. kanill
 0.25 tsk. chili-pipar, eða eftir smekk
 250 ml vatn
 nan-brauð eða pítubrauð

Leiðbeiningar

1

Skerið kjötið í litla teninga. Hitið 2 msk. af olíu á pönnu og brúnið kjötið við góðan hita. Takið það svo upp með gataspaða og setjið á disk. Setjið laukinn á pönnuna og steikið hann í 4-5 mínútur en látið hann ekki brenna. Bætið hvítlauknum á pönnuna og steikið í 1 mínútu í viðbót. Hrærið öllu kryddinu saman við. Setjið svo kjötið aftur á pönnuna, hellið vatninu yfir, hitið að suðu og látið malla í 15-20 mínútur, eða þar til kjötið er meyrt og sósan þykk. Hitið á meðan brauðið í ofni (gott að pensla það með svolítilli olíu og strá e.t.v. örlitlu kryddi á það) og berið það síðan fram með kjötinu, e.t.v. ásamt fersku, niðurskornu grænmeti og hreinni jógúrt.

Deila uppskrift