Fljótlegt indverskt lambakarrí

Þótt þessi réttur kallist karrí er ekki notað neitt karríduft í hann - karrí þýðir í rauninni "sósa" og Indverjar nota ekki tilbúnar karríblöndur, heldur blanda saman ýmsum tegundum af kryddi. Þetta er mjög einföld og fljótleg útgáfa af indverskum karrírétti.

Pottur og diskur

Hráefni

 6-700 g lambakjöt, beinlaust (t.d. framhryggur)
 3 msk. olía
 1 laukur, saxaður
 3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 1 msk. garam masala
 1 tsk. kummin
 1 tsk. engifer
 0.5 tsk. kanill
 0.25 tsk. chili-pipar, eða eftir smekk
 250 ml vatn
 nan-brauð eða pítubrauð

Leiðbeiningar

1

Skerið kjötið í litla teninga. Hitið 2 msk. af olíu á pönnu og brúnið kjötið við góðan hita. Takið það svo upp með gataspaða og setjið á disk. Setjið laukinn á pönnuna og steikið hann í 4-5 mínútur en látið hann ekki brenna. Bætið hvítlauknum á pönnuna og steikið í 1 mínútu í viðbót. Hrærið öllu kryddinu saman við. Setjið svo kjötið aftur á pönnuna, hellið vatninu yfir, hitið að suðu og látið malla í 15-20 mínútur, eða þar til kjötið er meyrt og sósan þykk. Hitið á meðan brauðið í ofni (gott að pensla það með svolítilli olíu og strá e.t.v. örlitlu kryddi á það) og berið það síðan fram með kjötinu, e.t.v. ásamt fersku, niðurskornu grænmeti og hreinni jógúrt.

Deila uppskrift

Þessi vefsíða notar vafrakökur til að bæta upplifun þína. Með því að halda áfram samþykkir þú stefnu okkar um vafrakökur.​