Fjárhirðapottréttur frá Baskalandi

Þessi réttur er upprunnin í Baskahéruðum Norður-Spánar og ber ýmis einkenni þess svæðis, inniheldur m.a. paprikur, rauðvín, hvítlauk, kryddjurtir og svolítið chili. Hann er einkar bragðmikill en þó ekki sterkkryddaður.

Pottur og diskur

Hráefni

 1-1.5 kg súpukjöt
 nýmalaður pipar
 salt
 1 tsk paprikuduft
 1 tsk oregano
 0.254 tsk chilipipar
 2 msk ólífuolía
 2 laukar, saxaðir
 6 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 2 rauðar paprikur, fræhreinsaðar og skornar í bita
 3 msk rauðvínsedik
 1 bolli rauðvín, soð eða vatn
 2 lárviðarlauf

Leiðbeiningar

1

Kjötið fituhreinsað að mestu og skorið í fremur stóra bita, 3-4 sm á kant. Salti, pipar, papriku, oregano og chilipipar blandað saman og kjötið núið upp úr blöndunni og látið liggja í 1 klst við stofuhita. Olían hituð í þykkbotna potti og kjötið brúnað á öllum hliðum við góðan hita. Tekið upp úr og sett á disk og mestallri fitunni hellt af pönnunni en 1-2 tsk skildar eftir. Laukurinn og hvítlaukurinn settur út í og látinn krauma við meðalhita í um 5 mínútur. Á meðan er paprikan og edikið sett í matvinnsluvél eða blandara og maukað. Þegar laukurinn er meyr og gullinn er kjötinu raðað ofan á hann og síðan er paprikumaukinu, víninu og vatninu hellt yfir, lárviðarlaufin sett út í, hitað að suðu, lokað og látið malla undir loki við vægan hita í um 1 klst. Lokið tekið af og soðið í um hálftíma í viðbót, eða þar til kjötið er vel meyrt og sósan hefur soðið niður og þykknað (ef allur vökvi gufar upp má bæta meira vatni út í). Smakkað til, lárviðarlaufin fjarlægð, og borið fram t.d. með hrísgrjónum, kartöflustöppu eða ofnsteiktum kartöflum og grænu salati.

Deila uppskrift