Blóðmör

Blóðmör og lifrarpylsa er ódýr og góður íslenskur matur, ekki bara á haustin, heldur allt árið. Hér er hefðbundin, einföld blóðmörsuppskrift sem allir ættu að geta farið eftir. Auðvitað má svo bragðbæta blóðmörinn á ýmsan hátt, t.d. með kryddi eða rúsínum.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 l lambablóð
 0.25 l vatn
 1 msk gróft salt
 200 g hafragrjón
 um 800 g rúgmjöl
 6-800 g mör, brytjaður fremur smátt
 saumaðir vambarkeppir

Leiðbeiningar

1

Blóðið síað og hrært með vatni og salti. Hafragrjónum hrært saman við og síðan rúgmjöli, þar til blandan er hæfilega þykk (oft er miðað við að hún sé svo þykk að sleif sem stungið er í hana geti staðið nærri upprétt). Síðast er mörnum hrært saman við. Best er að hræra með handleggnum. Sett í keppina; þá má ekki fylla nema rúmlega til hálfs. Þeim er svo lokað með sláturnálum eða saumað fyrir þá. Saltvatn hitað í stórum potti og keppirnir settir ofan í þegar sýður. Þeir eru pikkaðir vel með prjóni þegar vatnið fer að sjóða aftur. Látnir malla í 2-2½ klst eftir stærð við vægan hita og snúið við og við. Keppirnir teknir upp úr með gataspaða og látnir kólna.

Deila uppskrift