Berja- og villikryddað lambalæri

Íslenskt lambakjöt, kryddað með villijurtum og berjum til að fá hið eina sanna fjallabragð. Hér er notuð blóðbergsteblanda úr Aðaldal en einnig má nota ýmsar villtar kryddjurtir, innlendar eða erlendar.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, um 2.2 kg
 2 msk. blóðbergsteblanda (nota má aðrar villtar kryddjurtir eftir smekk)
 1 laukur, saxaður
 2 dl bláber og/eða krækiber, fryst eða þurrkuð
 nýmalaður pipar
 salt
 2 msk. olía í steikarfatið

Leiðbeiningar

1

Fitusnyrtið e.t.v. lambalærið svolítið og stingið í það með beittum hnífsoddi á nokkrum stöðum.

Blandið saman kryddjurtum, söxuðum lauk, léttkrömdum berjum og pipar og dreifið jafnt á lærið.
Vefjið það í álpappír og látið liggja í sólarhring í ísskáp.

Takið það þá út, setjið í olíuborið steikarfat og látið standa í um 1 klst.

Hitið á meðan ofninn í 220°C.

Saltið lærið, setjið það í ofninn og steikið í um 15 mínútur.

Lækkið þá hitann í 150°C og steikið áfram í 1 klst. og 15 mín. eða lengur, eða þar til kjöthitamælir sem stungið er í vöðvann þar sem hann er þykkastur sýnir 60°C fyrir meðalsteikt, 70°C fyrir gegnsteikt.

Takið lærið þá út og látið bíða á hlýjum stað í u.þ.b. 20 mínútur áður en það er borið fram.

Upplagt meðlæti:
Ofnbakað rótargrænmeti

Deila uppskrift