Lambakebab frá ýmsum löndum
Víða um lönd tíðkast að skera lambakjöt í bita, láta það liggja í kryddlegi og grilla það síðan á teini, gjarnan með ýmsu grænmeti á milli bitanna. Smátt skornir kjötbitar og grænmeti passa síðan vel á smáréttaborð!
- 4
Hráefni
Leiðbeiningar
Hér eru nokkur sýnishorn:
Bestu bitarnir í lambakebab eru yfirleitt af lærinu en fitusnyrtir bitar af bóg eru líka mjög góðir. Heppilegast er að þeir séu 2 ½-3 ½ cm á kant og sem jafnastir að stærð og lögun. Kjötið er yfirleitt lagt í kryddlög, helst í nokkrar klukkustundir eða í allt að 2 sólarhringa. Ef óskað er eftir gegnsteiktu kjöti með góðri skorpu er best að setja bitana ekki þétt á teinana en ef óskað er eftir meyru, safaríku kjöti eiga þeir að vera þétt saman. Venjulega er reiknað með að bitar af þessari stærð þurfi að grillast í 8-12 mínútur og sé snúið nokkrum sinnum á meðan.
Kryddlögurinn er oft mjög einfaldur, aðeins ólífuolía og sítrónusafi eða edik, og svo má bæta ýmsu kryddi út í það og hafa mismunandi grænmeti á milli bitanna. Hér eru nokkrar hugmyndir:
Tyrkneskt kebab: Muldu lárviðarlaufi er blandað saman við kryddlöginn og tómatar og laukbátar settir á milli bitanna eða borið fram með, ásamt brauði.
Grískt kebab: Oregano og salvíu eða mintu er bætt út í kryddlöginn og stórir laukbitar og grænir paprikubitar hafðir á milli kjötbitanna.
Rúmenskt kebab: Oregano er bætt út í kryddlöginn og grænmetið er eggaldin í teningum, tómatar og grænar paprikur.
Líbanskt kebab: Timjani og mintu er blandað saman við kryddlöginn og algengt grænmeti eru grænar paprikur, laukur og tómatur.
Persneskt kebab: Kjötið er skorið í lengjur fremur en teninga og lagt í kryddlög úr jógúrt og timjani. Með þessu eru borin fram hrísgrjón og laukur.