Hvítlauks-lambaskankar

Það vantar ekki hvítlaukinn í þennan gómsæta rétt, þar sem kjötið er látið malla lengi í ofni við hægan hita, þar til það er orðið mjög meyrt og bragðgott.

Pottur og diskur

Hráefni

 3 msk ólífuolía
 3-4 lambaskankar
 2 laukar, gjarna rauðlaukar
 2 hvítlaukar, skipt í geira og þeir afhýddir
 1 dós saxaðir tómatar
 1 tsk oregano, þurrkað
 0.5 tsk basilíka, þurrkuð
 100 ml rauðvín, þurrt
 nýmalaður pipar
 salt
 250 g sveppir, helst litlir

Leiðbeiningar

1

Ofninn hitaður í 175 gráður. Olían hituð í þykkbotna potti sem þolir að fara í ofninn og lambaskankarnir brúnaðir á öllum hliðum við nokkuð góðan hita. Teknir upp úr og geymdir en laukurinn og hvítlaukurinn settur í pottinn og látinn krauma við meðalhita í 5-8 mínútur án þess að brúnast. Tómötunum hellt í sigti og lögurinn látinn renna af þeim en síðan er þeim hrært saman við ásamt kryddjurtunum. Látið malla í 3-4 mínútur en þá er rauðvíninu hellt yfir, kryddað með pipar og salti, lambaskönkunum bætt í pottinn og hitað að suðu. Lok sett á pottinn og hann settur í ofninn. Kjötið gufusteikt í um 2 klst og snúið þrisvar eða fjórum sinnum á meðan. Þegar um hálftími er eftir af eldunartímanum er sveppunum bætt í pottinn. Þegar kjötið er meyrt er það tekið upp úr og fært á hitað fat. Sósan smökkuð til, látin sjóða dálítið niður og síðan hellt yfir skankana.

Deila uppskrift