Fjallalamb á veisluborðið

Ljúffengt lambalæri á veisluborðið, kryddað með villtum íslenskum kryddjurtum, t.d. blóðbergi. Bragðið verður einstaklega milt og gott en hefur um leið þennan íslenska jurtakeim sem allir kunna að meta.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, um 2.2 kg
 3 msk. blóðbergsteblanda (nota má aðrar villtar kryddjurtir eða kryddjurtablöndur eftir smekk)
 1 msk. ferskt tímían, saxað
 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 1 tsk. svört piparkorn
 3 msk. ólífuolía
 2 msk. rauðvín, eða vatn og 1 tsk. rauðvínsedik
 2 msk. olía í steikarfatið
 salt
 1-2 msk. vínedik

Leiðbeiningar

1

Fitusnyrtið e.t.v. lambalærið svolítið og stingið í það með beittum hnífsoddi á nokkrum stöðum. Blandið saman þurrkuðum og ferskum kryddjurtum, hvítlauk og pipar og steytið saman í mortéli, eða saxið kryddið og hvítlaukinn smátt með hníf og malið piparinn í kvörn. Hrærið olíu og rauðvíni saman við. Núið blöndunni jafnt á allt lærið, vefjið það inn í álpappír og látið liggja í tvo sólarhringa í ísskáp. Takið það þá út, setjið í olíuborið steikarfat og látið standa í um 1 klst. Hitið á meðan ofninn í 220°C. Saltið lærið, setjið það í ofninn og steikið í um 20 mínútur, eða þar til það hefur tekið nokkuð góðan lit. Lækkið þá hitann í 160°C og steikið áfram í klukkustund eða lengur, eftir smekk, eða þar til kjöthitamælir sem stungið er í vöðvann þar sem hann er þykkastur sýnir 60°C fyrir meðalsteikt, 70°C fyrir gegnsteikt. Dreypið edikinu yfir lærið þegar 10-15 mínútur eru eftir af steikingartímanum. Takið lærið þá út og látið bíða á hlýjum stað í u.þ.b. 20 mínútur áður en það er borið fram.

Deila uppskrift