Chili-apríkósugljáður lambahryggur

Uppskriftir að lambahrygg í erlendum matreiðslubókum eru oftar en ekki miðaðar við að hryggurinn (eða hluti hans) sé sagaður í tvennt eftir endilöngu og þá er hryggsúlan líka oftast fjarlægð. Við þetta fást kjötstykki sem er auðveldara að matreiða og skera en þegar hryggurinn er eldaður á hefðbundinn hátt. Oft er hægt að fá þetta gert í kjötborði verslunarinnar en ef til er þungur og góður hnífur er ekki sérlega vandasamt að höggva hrygginn sundur heima í eldhúsi.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambahryggur, um 2 kg
 200 ml apríkósusulta
 100 ml sæt chili-sósa
 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir mjög smátt
 nýmalaður pipar
 salt
 400 ml rauðvín
 sósujafnari

Leiðbeiningar

1

Skerið djúpan skurð þétt upp við hryggsúluna báðum megin, alveg niður að rifjum og höggvið rifin frá. Einnig má láta saga eða höggva hryggsúluna frá í versluninni. Leggið báða hrygghelmingana í eldfast mót eða á bakka. Blandið saman apríkósusultu, chili-sósu, hvítlauk, pipar og salti og hellið yfir. Látið standa í um klukkustund við stofuhita og snúið nokkrum sinnum. Hitið ofninn í 235°C. Setjið hrygghelmingana í ofnskúffu eða stórt, eldfast mót og látið rifin snúa niður. Setjið kjötið í ofninn og steikið það í 12-15 mínútur. Takið það þá út, breiðið álpappír lauslega yfir og látið standa í um 10 mínútur. Setjið það aftur í ofninn við sama hita, hellið víninu í fatið (ekki yfir kjötið) og steikið í um 10 mínútur í viðbót, eða eftir smekk. Fylgist með því og breiðið álpappír yfir ef það virðist ætla að dökkna of mikið. Takið það út og látið standa í a.m.k. 10 mínútur, áður en skorið er í það. Hellið rauðvínssoðinu í pott, hitið að suðu og látið malla í nokkrar mínútur. Smakkið og bragðbætið eftir smekk. Þykkið sósuna svolítið með sósujafnara og berið hana fram með kjötinu, ásamt steinseljukartöflum.

Deila uppskrift