Sviðasúpa frá Kúvæt
Á meðal Arabaþjóða þykja svið víða sælgæti og þau eru elduð á ýmsan hátt. Til dæmis er algengt að sjóða þau í súpu og eru slíkar súpur gjarna vel kryddaðar og sterkar. Þessi súpa er frá Kúvæt og kallast þar abawaat.
- 4
Hráefni
Leiðbeiningar
Skolið sviðin vel í köldu, rennandi vatni. Setjið þau svo í stóran pott, hellið um 2 lítrum af köldu vatni yfir, kryddið með pipar og salti og látið suðuna koma vel upp. Fleytið froðu ofan af og bætið síðan kardimommum, engifer, kanil, kummini og negul í pottinn. Látið malla við hægan hita undir loki í um 1 klukkustund. Afhýðið hvítlauksgeirana og kremjið þá dálítið með flötu hnífsblaði en pressið þá ekki. Saxið laukinn fremur smátt og bætið í pottinn ásamt hvítlauk, tómatþykkni, túrmeriki og safanum úr einni sítrónu. Látið malla í hálftíma í viðbót. Takið þá sviðakjammana upp, látið kólna ögn og losið síðan kjötið af beinunum og skerið í bita. Smakkið súpuna og bragðbætið hana e.t.v. með pipar, salti og meiri sítrónusafa. Skiptið kjötinu á diska og ausið súpu yfir. Berið fram t.d. með pítubrauði sem penslað hefur verið með olíu og hitað undir grillinu í ofninum. Þeir sem vilja sterkari súpu geta bragðbætt hana með örlitlu grænu kryddmauki.
Grænt kryddmauk:
Saxið hvítlauk, steinselju og chili mjög smátt (e.t.v. í matvinnsluvél), saltið og hrærið olíunni saman við.