Létt kjötsúpa II

Hefðbundin íslensk kjötsúpa er afbragðsgóð en sumir forðast hana af því að þeim finnst kjötið of feitt og e.t.v. ólystugt, eða þeir kunna ekki að meta rófur og annað grænmeti sem í henni er. Þá er lausnin að nota fituminna kjöt og breyta til með grænmeti. Hér er ein slík útgáfa:

Pottur og diskur

Hráefni

 500-600 g lambakjöt, t.d. af framhrygg
 1 l vatn
 nýmalaður pipar
 salt
 2 sellerístönglar
 2-3 gulrætur
 3 msk. súpujurtir
 1 lárviðarlauf
 0.25 tsk. þurrkað tímían eða nokkrar greinar af fersku
 100 g spergilkál (broccoli)
 saxaður kerfill (má sleppa)

Leiðbeiningar

1

Skerið kjötið af beinunum en hendið þeim ekki, það er gott að fá kraftinn úr þeim í súpuna. Hreinsið burt alla eða mestalla fitu og skerið kjötið í litla bita, u.þ.b. munnbitastærð. Setjið kjötið og beinin í pott, kryddið með pipar og salti, hellið köldu vatni yfir og hitið að suðu. Fleytið froðu ofan af með gataspaða. Skerið sellerístönglana í litla bita og gulræturnar í þunnar sneiðar og setjið út í ásamt súpujurtum, lárviðarlaufi og tímíani. Látið súpuna malla við fremur vægan hita í 30-40 mínútur, eða þar til kjötið er alveg meyrt. Skiptið þá spergilkálinu í litla kvisti, setjið það út í og sjóðið í um 5 mínútur í viðbót. Smakkið og bragðbætið með pipar og salti eftir smekk. Setjið e.t.v. saxaðan kerfil út í súpuna rétt áður en hún er borin fram.

Deila uppskrift