Kjötsúpa meistarans

Kjötsúpa
Kjötsúpa meistarans

Hráefni

Lambasoð og kjöt
 800 gr. lambasíðubitar eða annað feitt lambakjöt
  1 kg. lambabein
  2 l. vatn
  2 geirar hvítlaukur
  10 stk. svört piparkorn
  2 stk. lárviðarlauf Íslenskt sjávarsalt
  Íslenskt sjávarsalt
Grænmetis “núðlur”
 1 stk. nípa (steinseljurót)
  4 stk. gulrætur
  1/2 blaðlaukur
Skessujurtarolía
 50 gr. skessujurt
 50 gr. bragðlítil repju-eða sólblómaolía

Leiðbeiningar

Fyrir þá allra metnaðarfyllstu
1

Þessi uppskrift krefst töluverðs undirbúnings og hentar þeim sem vilja prófa sig áfram og bera sig saman við meistarakokkana. Soðið er lagað a.m.k. degi áður en súpan er borin fram, fryst og svo sigtað í gegnum klút svo að það sé sem tærast. Grænmetið sem er í súpunni er verkað ferskt en þarf líka a.m.k dagsfyrirvara. Skorið er eftir því endilöngu og þurrkað við lágan hita og gegnir hlutverki súpujurta, sem virka þá nánast eins og skyndinúðlur þegar súpunni er hellt yfir þær. Kyddjurtarolía úr skessujurt sem oft er að finna í súpujurta blöndum er svo rúsínan í pylsuendanum.

Soð og kjöt
2

Byrjið á soðinu a.m.k. degi áður en súpan er borin fram. Lambasíðubitar og bein eru brúnuð í ofnskúffu á 180°c í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til beinin eru vel gullinbrún.

3

Fitunni er hellt í ílát til hliðar og kjöt og bein sett í pott ásamt vatni við miðlungshita. Gott er að hella smá vatni í ofnskúffuna og skrapa hana vel og nýta í soðið til að fá allt bragðið með.

4

Þegar suðan kemur upp er froðunni fleytt ofan af, endurtakið tvisvar fyrstu 30 mín. Því næst er krömdum hvítlauksgeirum bætt við ásamt svörtum piparkornum og lárviðarlaufum.

5

Látið sjóða rólega í a.m.k. 2 klst. Sigtið og frystið soðið í 12 klst. Kjötið er rifið niður og sett í lambafituna og geymt þar þangað til súpan er borin fram.

Grænmetis "núðlur"
6

Deginum áður þarf að undirbúa „grænmetisnúðlurnar“. Grænmetið er skolað vel og skorið eftir endilöngu í 2 mm. borða, tilvalið að nota grænmetisskrælara.

7

Dreifið sneiðunum á grind eða bakka og þurrkið í ofni við 70°c í u.þ.b. 6 tíma eða þar til grænmetið er alveg þurrt.

Skessujurtarolía
8

Skessujurtarolía er löguð með því að setja skessujurt og olíu saman í matvinnsluvél og vinna í um það bil 10 mínútur á hæsta styrk eða þar til olían er orðin heit.
Olían er sigtuð í gegnum sigti og síuklút. Frosið soðið er sett í sigti með síuklút og pott undir og látið síast rólega þar til að hreint soð er komið í gegn.

Framreiðsla á súpunni
9

Frosið soðið er sett í sigti með síuklút og pott undir og látið síast rólega þar til að hreint soð er komið í gegn. Soðið er hitað að suðu, og smakkað til með salti. Bætið 2 matskeiðum af skessujurtarolíu í soðið.

10

Kjötið í lambafitunni hitað upp varlega og smakkað til með salti og pipar. Það er sett á diskinn, því næst grænmetisstrimlar.

11

Soðinu hellt sjóðandi heitu yfir diskinn. Bíðið u.þ.b. eina mínútu á meðan grænmetisstrimlarnir blotna og verða eins og núðlur í súpunni.

Deila uppskrift