Grískur skyndibiti

Grískur skyndibiti þar sem litlir bitar af lambakjöti eru settir inn í pítubrauð ásamt grænmeti. Hér er kjötið grillað í ofni en auðvitað má líka grilla það á útigrilli.

Pottur og diskur

Hráefni

 350 g meyrt lambakjöt
 3 msk hvítlauksolía
 1 tsk grískt lambakrydd (frá Pottagöldrum)
 nýmalaður pipar
 salt
 3 msk smjör
 0.25 tsk paprikuduft
 4 pítubrauð nokkur salatblöð
 2 tómatar, vel þroskaðir en þéttir, skornir í sneiðar
 0.5 rauðlaukur, skorinn í sneiðar

Leiðbeiningar

1

Kjötið skorið í teninga, 2-2 ½ cm á kant, sett í skál og hvítlauksolíu, lambakryddi, pipar og salti hrært saman við og látið standa, gjarna í nokkrar klukkustundir í kæli. Grillið í ofninum hitað og bökunarplata klædd með álpappír. Kjötbitarnir þræddir upp á teina, settir á plötuna og grillaðir efst í ofninum í 8-10 mínútur, eða þar til kjötið er steikt í gegn; snúið öðru hverju. Á meðan kjötið grillast er smjörið brætt og paprikudufti, pipar og salti og e.t.v. örlitlu lambakryddi eða oregano hrært saman við. Efri hlið brauðanna pensluð vel með smjörinu og þeim síðan raðað á grind eða bökunarplötu. Þegar búið er að grilla kjötið er brauðunum brugðið undir heitt grillið þar til þau eru farin að taka lit. Brauðin eru svo opnuð og fyllt með salatblöðum, kjötbitum og grænmeti og afganginum af smjörinu e.t.v. dreypt yfir. Borið fram t.d. með tzatziki eða annarri kaldri jógúrt- eða skyrsósu.

Deila uppskrift