Spænskar hvítlaukskótilettur

Gömul, spænsk uppskrift sem ætti að falla hvítlauksvinum vel í geð, því bæði kótiletturnar og kartöflurnar eru gegnsósa af hvítlauk.

Pottur og diskur

Hráefni

 800 g kartöflur
 150 ml ólífuolía
 1 heill hvítlaukur
 3 msk hvítvínsedik
 4 msk vatn
 1 kg lambakótilettur
 1 tsk sykur
 nýmalaður pipar
 salt

Leiðbeiningar

1

Kartöflurnar skornar í sneiðar; engin þörf á að afhýða þær ef þær eru nýlega uppteknar. Helmingurinn af olíunni hitaður á stórri, þykkbotna pönnu og kartöflurnar látnar krauma í henni í nokkrar mínútur við fremur vægan hita. Hvítlauksgeirarnir afhýddir, skornir í bita, settir í mortél og steyttir í mauk. Ediki og vatni hrært saman við. Afgangurinn af olíunni hitaður vel á annarri pönnu. Kótiletturnar settar á hana og steiktar við háan hita þar til þær hafa tekið góðan lit á báðum hliðum. Þá er hitinn lækkaður, helmingnum af hvítlaukssósunni hellt yfir þær og hinum helmingnum yfir kartöflurnar, sykri, pipar og salti stráð yfir báðar pönnurnar, og látið krauma áfram við fremur vægan hita í 8-10 mínútur, eða þar til kótiletturnar eru steiktar í gegn og kartöflurnar vel meyrar. Þá eru kartöflurnar teknar upp með gataspaða og raðað á fat, kótilettunum raðað ofan á og afganginum af hvítlauksolíunni hellt af báðum pönnunum og hún borin fram með.

Deila uppskrift