Skyrmarinerað lambalæri

Skyr og lambakjöt geta vel átt saman í matargerð og þessi óvenjulega uppskrift er dæmi um það.

Pottur og diskur

Hráefni

 1 lambalæri, um 2.5 kg
 200 ml (1 lítil dós) hreint skyr eða 2 dósir hrein jógúrt, síuð
 4 msk tómatþykkni (paste)
 100 ml rauðvín
 4 msk ólífuolía
 6 hvítlauksgeirar, pressaðir
 2 lárviðarlauf, mulin
 1 msk ferskt timjan, saxað, eða 1 tsk þurrkað
 1 tsk sykur
 1 tsk salt
 0.5 tsk nýmalaður pipar

Leiðbeiningar

1

Lambalærið fitusnyrt vel og djúpir en stuttir skurðir gerðir í það á allmörgum stöðum. Best er að fjarlægja mjaðmarbeinið en það er þó ekki nauðsynlegt. Skyr og tómatþykkni þeytt saman, helst í matvinnsluvél, og síðan er víni og olíu þeytt saman við smátt og smátt ásamt hvítlauk, lárviðarlaufum, timjani, sykri, salti og pipar. Blöndunni er svo núið á lærið og vel inn í rifurnar. Lærið sett á fat, plast breitt yfir og látið standa í kæli í sólarhring. Þá er ofninn hitaður í 200 gráður. Lærið sett í eldfast fat, lok lagt yfir eða álpappír breiddur yfir, og steikt í um 45 mínútur. Þá er lærið fært yfir á grind sem höfð er ofan á ofnskúffu og steikt áfram í 45 mínútur, eða eftir smekk, en steikarsoðið úr upprunalega steikarfatinu síað, sett í pott og látið sjóða niður nokkuð vel. Þegar lærið er fullsteikt er það tekið út og látið standa á hlýjum stað undir álpappír í 10-20 mínútur áður en það er skorið. Soðið borið fram með sem sósa.

Deila uppskrift