Lifrarpylsa

Lifrarpylsa er ódýr og góður íslenskur matur sem allir ættu að geta búið til sjálfir, það er mikil búbót í henni. Sumir vilja hana helst heita, öðrum finnst hún best köld með glasi af mjólk.

Pottur og diskur

Hráefni

 3 lambalifrar, meðalstórar
 1 l mjólk, eða undanrenna eða kjötsoð
 1 msk gróft salt
 300 g hafragrjón
 200 g heilhveiti
 um 600 g rúgmjól
 800 g mör (eða eftir smekk), fremur smátt brytjaður
 saumaðir vambarkeppir

Leiðbeiningar

1

Lifrarnar hreinsaðar og himnur og æðar teknar burt. Þá eru þær hakkaðar í hakkavél eða matvinnsluvél og síðan hrært saman við mjólkina og saltið. Hafragrjónum og mestöllu rúgmjölinu blandað saman og hrært út í lifrarmaukið. Meira rúgmjöli bætt við, þar til kominn er þykkur grautur, og síðan mörnum. Látið í keppina og þeir fylltir rúmlega til hálfs. Keppunum er svo lokað með sláturnálum eða saumað fyrir þá. Saltvatn hitað í stórum potti og keppirnir settir ofan í þegar sýður. Þeir eru pikkaðir vel með prjóni þegar vatnið fer að sjóða aftur. Látið malla í 2-2½ klst eftir stærð við vægan hita og keppunum snúið við og við. Keppirnir eru svo teknir upp úr með gataspaða og kældir, eigi ekki að borða lifrarpylsuna heita.
Nýru má hakka með lifrunum og eru þá notuð tvö nýru á móti hverri lifur.

Deila uppskrift